Stjörnumok útaf Siglufirði

Undanfarið hafa línubátar sem róið hafa frá Siglufirði verið að fá afla sem jafnvel elstu menn skáka ekki með tröllasögum. Á stóru svæði hefur veiðin verið slík að jafnvel verður að skilja eftir bala í sjó.

12 tonn á 24 bala

Aflinn hefur verið allt að 500 kg á balann og fer ekki undir 200 kíló á svæðinu. Í dag landaði einn báturinn 8 tonnum af 28 bölum, 400 króka og fyrir stuttu lagði annar 10 bala sem beittir voru fyrir grásleppuvertíð og landaði 4,8 tonnum. Þá hefur einnig heyrst af 12 tonna afla á 24 bala.

Dágott kropp á færin

Færabátar eru einnig að fá góðan afla, en oftar er það þannig að góð línuveiði fer ekki saman við góða handfæraveiði.
Þessi mikla veiði er að fást allt frá 20 föðmum niður á dýpið, 70 – 80 faðma. U.þ.b. 10% hefur reynst ýsa, en annars er aflinn fallegur þorskur, 3 – 4 kg. Venjan er sú á þessu svæði að ýsan hverfur um þetta leyti og snýr til baka í ágúst.

Sjaldgæft „vandamál“

Það er skondin hlið á þessum frábæru fréttum að einn trillukarl á staðnum á orðið lítið eftir af kvótanum en all nokkra beitta bala í frysti. Nú stendur hann frammi fyrir því „vandamáli“ hvað hann á að þora að taka marga bala á sjóinn!