Tillögur LS – 220 þús. tonna jafnstöðuafli næstu 3 árin, nótaívilnun …

Fyrr í dag kynnti LS fyrir sjávarútvegsráðherra tillögur sínar um hámarksafla á næsta fiskveiðiári. Þar hvetur LS ráðherra til að ákveða jafnstöðuafla í þorski næstu 3 árin 220 þúsund tonn. Skorað er á ráðherra að breyta reglum um línuívilnun þannig að hún nái til allra dagróðrabáta, auk þess að hún taki til keilu og löngu. Þá er einnig lagt til að tekin verði upp nótaívilnun við veiðar á loðnu og síld.

Tillögurnar eru eftirfarandi:„

Þorskur 220 þúsund tonn

Gefin verði út jafnstöðuafli í þorski næstu 3 fiskveiðiárin. Línuívilnun gildi fyrir alla dagróðrabáta og dragist ekki frá útgefnum hámarksafla.

Ýsa 110 þúsund tonn

Jafnframt verði viðmiðunarmörk við skyndilokun breytt, verði 40 cm og línuívilnun við ýsuveiðar gildi fyrir alla dagróðrabáta.

Ufsi 80 þúsund tonn

Þar sem ufsi flakkar nokkuð milli hafsvæða er ástæða til að endurskoða aflahámark verði skyndilega vart við aukinn ufsa.

Gullkarfi

Á grundvelli lélegrar nýliðunar frá 1991, minnkandi afla á sóknareiningu og að ekki tókst að veiða það sem áætlað var 2004 telur LS óráðlegt að gefa út óbreyttan kvóta 35 þúsund tonn.

Djúpkarfi

Þar sem djúpkarfaafli 2004 er aðeins helmingur af meðaltalsafla áranna 0-20-1996, telur LS að ástæða sé til að fara afarvarlega í veiðum á tegundinni næstu árin.

Grálúða

Í verulegri hættu að mati Hafró. LS leggur áherslu á að samkomulagi verði náð við Færeyinga og þjóðir sem veiða grálúðu við A-Grænland um hámarksafla.

Lúða

Sem aukaafli við tog- og línuveiðar hefur engin áhrif á stofninn. LS leggur til að settar verði reglur um hámark á lúðu sem meðafla við dragnótaveiðar.

Skarkoli

LS ítrekar fyrri tillögur að skarkolaveiðar í net á svæðinu frá Öndverðarnesi norður um og austur að Hvítingum verði ekki háðar takmörkunum.

Steinbítur

LS ítrekar fyrri tillögur að bein sókn í steinbít með togveiðarfærum verði bönnuð á hrygningartíma hans. Þá ítrekar LS einnig að línuívilnun í steinbít gildi fyrir alla dagróðrabáta.

Síld, loðna, kolmunni

Við flottrollsveiðar á þessum tegundum verði skylt að hafa veiðieftirlitsmann um borð. Tekin verði upp nótaívilnun við loðnu- og síldveiðar.

Langa og keila

Línuívilnun gildi við veiðar á tegundunum sem nái til allra dagróðrabáta.

Skötuselur

Sem meðafli verði ekki talin til kvóta.

Jafnframt leggur LS til að tekin verði upp heildarendurskoðun á dragnótaveiðum innfjarða. Veruleg tilslökun hefur átt sér stað á undanförnum áratugum án þess að Hafrannsóknastofnun hafi lagt slíkt til.“