„Hér á Ströndum er koppalogn, flóinn spegilsléttur en enginn á sjó. Annar dagurinn í röð sem menn sitja heima vegna þess að verðið er komið niður úr öllu. Ástandið er grafalvarlegt og gæti leitt til verulegra erfiðleika ef ekki verður breyting á fljótlega“, sagði Már Ólafsson á Hólmavík.
Fiskverðið hefur verið mikið áhyggjuefni síðustu daga og hefur það hrunið mjög þrátt fyrir að hafa ekki verið hátt fyrir, er lægra en nokkru sinni á undanförnum árum. Í gær var þorskur á fiskmörkuðum kominn niður fyrir 150 kr/kg og kílóverð á óslægðum náði ekki hundrað krónum. Þá var slægð ýsa komin niður úr öllu velsæmi, seldist á 49 krónur hvert kíló.
Að sögn Más hefur fiskiríið verið ágætt. Hann segir að síðustu daga hafi þó dregið úr því vegna mikillar loðnu sem er þar í flóanum. Langt væri síðan jafn mikið magn hafi verið á ferðinni. Jafnvel álítur Már að það hafi ekki verið meira síðan 1992 þegar óhemju ganga kom þar inn. Þá fylgdi þessu mikið af hval með tilheyrandi bægslagangi og strókum.