Eins og fram hefur komið eru grásleppuveiðar hafnar við sunnanvert vestur-Grænland. Vertíðin fer rólega af stað, fyrst og fremst vegna veðurs. Farið hefur saman snjókoma, mikið frost og vindur.
Samningaviðræðum veiðimanna og kaupenda er lokið, í bili a.m.k. og stærsti kaupandinn, NUKA A/S mun greiða um 5,5% lægra verð en í fyrra, þ.e. 18 danskar krónur fyrir kílóið af brauthrognum. Royal Greenland hyggst hinsvegar einungis greiða 16 danskar krónur, en smærri kaupendur munu vera að bjóða hærra verð en bæði þessi fyrirtæki.
Samtök veiði- og fiskimanna á Grænlandi (KNAPK) og grænlenska heimastjórnin eru með á lokastigi reglur um veiðileyfi sem taka eiga gildi í þessum mánuði. Það er álit KNAPK að verulega muni draga úr fjölda þeirra sem stunda grásleppuveiðarnar, því með reglunum verður einungis heimilt að stunda þær af atvinnumönnum. Þá hefur styrkjum til netakaupa verið hætt.
Aðalfundur KNAPK hefst í dag og lýkur á mánudag. Hann er haldinn í Disco Bay, einu nyrsta byggða bóli veraldar.