Vilja stórauka línuívilnun

Á norðanverðum Vestfjörðum, félagssvæði Eldingar, hefur sprottið upp hópur sem vill stórauka línuívilnun á kostnað byggðakvótans. Fyrir hópnum fer Guðmundur Halldórsson fyrrverandi formaður Eldingar og segir hann málið hafa mikið fylgi á hans svæði. Guðmundur segir línuívilnun hafa nýst Vestfirðingum einkar vel og rétt sé að slá á það ósætti sem ríkir um byggðakvótann með því að útfæra línuívilnun eins og stefnt var að í upphafi. Þar á Guðmundur við að línuívilnun nái til allra dagróðrabáta sem róa með línu, hvort heldur sé beitt í landi, notuð beitningatrekt eða vélbeitt. Einnig að ívilnunin verði aukin, þannig að 80% af afla þessara báta teljist til kvóta og þá sé engin tegund undanskilin.