Viðmiðunarmörk við skyndilokun verði 50 cm

Í Fiskifréttum 18. febrúar sl. birtist grein eftir Örn Pálsson undir heitinu „Viðmiðunarmörk við skyndilokun verði 50 cm“.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um ástand þorsksins í Breiðafirði. Snæfell, félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, efndi til fundar um málið 26. janúar sl. Fundurinn samþykkti þar efnismikla ályktun sem að mati fundarboðenda náði yfir allt málefnið. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar var hins vegar á annarri skoðun í Auðlindinni og viðtali sem haft var við hann í Morgunblaðinu og birt var á heimasíðu Hafró, þar sem hann sagði ályktun smábátasjómanna ekki vera í samræmi við þann anda sem var á fundinum.

Undirritaður lýsir furðu sinni á þessu viðhorfi. Að sjálfsögðu var fundurinn aðeins einn þáttur í því ferli sem hófst með tillögu Hafró um lokun grunnslóðarinnar við norðanvert Snæfellsnes og sjávarútvegsráðherra varð við. Á fundinum kom fram mikill fróðleikur frá starfsmönnum Hafró, frummælendum og öðrum fundarmönnum. Allt þetta virtist vel þegið og skila sér ágætlega inn á fundinn. Það breytir því þó ekki að fundurinn álykti ekki um málefnið. Aflið sem býr í svo fjölmennum fundi verður að nýta m.a. til að lagfæra það sem miður fór og kom af stað óánægjunni.

Mistök Hafró

Það voru mistök hjá Hafró að hafa ekki samráð við þá sem nýta þessi mið við ákvörðun um lokun. Með því hefðu fengist upplýsingar um þau svæði sem höfðu að geyma fisk sem Hafró telur æskilegt að bíða með að veiða. Það verður varla við það sakast að fundurinn ályktaði um það mál.

Það voru mistök hjá Hafró að hafa ekki aldursgreint fisk á svæðinu áður en reglugerð var sett. Í ályktuninni mótmælti fundurinn slíkum vinnubrögðum.

Undirritaður er þeirrar skoðunar að ályktunin hafi þannig komið því til leiðar að framangreind mistök endurtaki sig ekki. Þannig hefur hún bent á vinnubrögð sem farsælla er að ástunda og minnka þannig líkur á leiðindum.

Óháðir aðilar leggi mat á friðunarstefnu Hafró

Einn er sá þáttur í ályktun fundar Snæfells sem litla athygli hefur fengið, en undirritaður telur verðskulda umræðu:
„Fundurinn krefst þess að ríkisstjórn Íslands láti fara fram heildarendurskoðun á reglum sem gilda um lokun veiðisvæða og að óháðir aðilar framkvæmi mat á friðunarstefnu Hafrannsóknastofnunar á smáþorski og árangri hennar við uppbyggingu þorskstofnsins.“

Ég er ekki í vafa um að þessi framkvæmd er orðin löngu tímabær. Það stækkar sá hópur sjómanna sem telur að færa eigi viðmiðunarmörkin að undirmálsskilgreiningu sjávarútvegsráðuneytins. Þannig yrðu viðmiðunarmörk fyrir þorsk 50 cm í stað 55 cm sem nú er.
Breytingin mundi minnka lýkur á skyndilokunum á þorsk sem náð hefur „veiðialdri“. Það sýna niðurstöður mælinganna sem gerðar voru í Breiðafirði þar sem meðallengd þorsks, sem vantaði aðeins 2 mánuði í að verða 5 ára, var 54 cm. Þá var þorskur sem var aðeins tvo mánuði frá 4 ára aldri með 47 cm meðallengd. Breytingin myndi minnka hvata til brottkasts af ótta sem stafaði af skyndilokun. Við þetta bættist hagræði við að samræma þessar tvær lengdarskilgreiningar.

Ráðherra dregur lappirnar vegna meðafla við kolmunnaviðar

Það er mikið undrunarefni hve lítt gengur hjá sjávarútvegsráðherra að framfylgja reglum um meðafla hjá kolmunnaskipum. Er nú svo komið að málið er komið í óefni, þorskafli skipanna utan kvóta stefnir hraðbyri upp á við.
Undirritaður vakti athygli á þessari stöðu í grein er hann ritaði á þessum vettvangi 20. ágúst sl. Vikuna á undan hafði birst hér í blaðinu eftirfarandi frétt: „Kolmunnaveiðar: Meðafli þorsks 0-1-1 tonn – tíföld aukning hlutfallslega miðað við allt árið í fyrra.“ Þessi tala hefur nú verið staðfest, 0-0-1 tonn.
Þá var einnig vitnað í Ólaf Karvel Pálsson fiskifræðing á Hafrannsóknastofnun þar sem hann sagði „engan vafa leika á því að besta leiðin til að koma í veg fyrir meðafla væri að skilja fiskinn strax frá í flottrollinu. Norðmenn hefðu gert tilraunir með slíka skilju sem lofuðu góðu.“

Í lok greinar undirritaðs beindi hann spurningu til sjávarútvegsráðherra, hvort fyrirhugað væri að breyta reglum sem gilda um veiðar á kolmunna þannig að meðafli við veiðarnar skili sér til hámarksverðmæta. Einnig hvort hann telji rétt að samræma beri reglur um meðafla við botnfiskveiðar, við það sem gildir um kolmunnaveiðar.

Að gefnu tilefni eru spurningarnar hér með ítrekaðar. Það nægir ekki að gefa þá skýringu að málið sé í skoðun hjá umgengnisnefnd. Málefnið er ekki nýtt að nálinni. Hvaða hugmyndir hefur ráðherrann í þessum efnum?

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.