dagakerfi og línuívilnun

Þau tvö mál sem mest hafa verið í umræðunni hjá smábátaeigendum síðustu misseri eru dagakerfið og tilvonandi línuívilnun. LS hefur lagt mikla áherslu á að festur verði lágmarksfjöldi daga og haldið fast við kröfuna um 23 daga í því sambandi. Það má vera hverjum manni ljóst að það þarf ekki að tregast mikið á veiðislóðum þessara báta til að við blasi mikill rekstrarvandi og því tæpast um harkalega kröfugerð að ræða. Væri þessum bátum úthlutað dögum sem tækju mið af þeim ‘potti’ sem þeim er áætlað, eða um 1800 tonn af þorski, myndu þeir fá u.þ.b. 4 daga úthlutaða og ekki þarf að lýsa því hvað biði þeirra í framhaldinu. Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd hefur forysta stórútgerðarinnar gert kröfu um slíka úthlutun.
Sl. vetur átti LS í viðræðum við sjávarútvegsráðuneytið um þessi mál og voru bundnar vonir við að út úr þeim kæmi niðurstaða. Svo varð ekki, mörgum til mikilla vonbrigða.

Ívilnandi ákvæði fyrir dagróðrabáta á línuveiðum er mál sem smábátaeigendur vilja í höfn sem allra fyrst. Þar er um að ræða aðgerð sem kemur smábátum á aflamarki, sem krókaaflamarki, til góða. Af ummælum forystu stórútgerðar og sjómannasamtaka má ráða að á þeim bæjum hafi línuívilnun verið afþökkuð, en hvort það hefur verið gert í samráði við þá félagsmenn sem gætu nýtt sér slíkt ákvæði er ekki vitað.

Varðandi þessi tvö stóru mál fyrir smábátaeigendur samþykkti stjórn LS á fundi sínum 10. þ.m. eftirfarandi:

dagakerfi
Stjórnin styður heilshugar hugmyndir viðræðunefndar LS frá sl. vetri um
veiðifyrirkomulag dagabáta. Jafnframt lýsir hún furðu sinni á að hstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki hafa treyst sér til að vinna hugmyndunum brautargengi á Alþingi, þannig að dagar yrðu ekki færri en 23 og hemill settur á aflaukningu véla og fjölda veiðitækja.

Línuívilnun
Stjórn LS fordæmir hugmyndir hstv. sjávarútvegsráðherra um útfærslu línuívilnunar og minnir á skýr ákvæði stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar um að auka byggðakvóta og taka upp línuívilnun.
Stjórn LS ítrekar fyrri samþykktir um línuívilnun til dagróðrarbáta, 20% í þorski og 50% í öðrum tegundum.