Línuívilnun gagnrýnd af stórútgerðinni

Forystumenn LÍÚ og Sjómannasambandsins gagnrýna fyrirhugaða línuívilnun harðlega. Ekki verður hjá því komist að gera athugasemdir við upphlaup þeirra sem helgast af því að þeir telja hagsmunum togaraútgerðarinnar best borgið með að ráðast á allt sem kemur frá Landssambandi smábátaeigenda. Formanni Sjómannasambandsins er ekki alsvarnað þar sem hann virðist ekki hafa áttað sig á að trillukarlar sáu lengra en út fyrir borðstokk sinna eigin báta þegar þeir undirbjuggu baráttuna fyrir línuívilnun. Engin mörk hafa verið sett á stærð bátanna, einungis að ívilnunin gildi um dagróðrarbáta þar sem beitt er eða stokkað upp í landi.Að sjálfsögðu geta fleiri bátar en smábátar nýtt sér ákvæðið og því eðlilegt að formaðurinn geri sér grein fyrir því að hans umbjóðendur, sjómenn, njóta hennar. Forsvarsmönnum togaraútgerðarinnar er hins vegar ekki við bjargandi, oft hrekkur af vörum mínum: „Hvað er að?“.

Krafa þjóðarinnar er að frá Íslandi sé gerður út öflugur floti sem stundar umhverfisvænar veiðar. Grunnslóðin verði nýtt með kyrrstæðum veiðarfærum og stærri skipin stundi veiðar fjarri landi með sín dragveiðarfæri. Allir stjórnmálaflokkar í framboði til Alþingis voru þessu meðvitaðir. Um þetta var m.a. kosið 10. maí sl. Því þarf það ekki að koma neinum á óvart að línuívilnun er handan við hornið.

Með línuívilnun er stigið stórt skref í að hvetja til enn frekari umhverfisvænna veiða. Ívilnandi ákvæði eins og hún byggir á eiga eftir að koma á fleiri veiðarfæri. Örugglega þarf ekki að bíða lengi þar til stjórnvöld taka handfærin með. Í kvótakerfi eins og nú er við líði er beinlínis nauðsynlegt að kerfið sjálft hvetji til umhverfisvænna veiða. Veiðar sem skila aflanum nánast spriklandi á land, fiskur sem sóst er eftir og á mesta möguleika til að skila auknum verðmætum til þjóðarinnar. Veiðarnar stundaðar á bátum sem eru byggðir á íslensku hugviti, framleiddir hér og eru fremstir meðal jafningja í veröldinni. Orkunotkun við veiðar miðað við aflaverðmæti aðeins fjórðungur af því sem gerist hjá þeim stærri og veiðarnar geta staðið undir þeirri kröfu að bátunum sé einungis heimilt að nota línu eða handfæri við veiðarnar.
Línuívilnun er mörgum fleirum kostum búin. Línan veiðir aðeins fisk sem er í ætisleit og verndar því þann sem liggur á meltunni, er jafnvel að koma sér fyrir í hrygningu osfrv. Þá er engin hætta á því að línan geti einungis veitt stærsta fiskinn, valið sér árganga. Fiskurinn á línuna er blandaður, þó væntanlega sé mest af þeim árgangi sem er hvað sterkastur í veiðinni það og það sinnið.
Síðast en ekki síst er línuívilnun sniðin að markmiði laga um stjórn fiskveiða sem er að „stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofnanna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Auk þess að veiðarnar eru umhverfisvænar eru þær einnig afar atvinnuskapandi. Frá Bolungarvík eru gerðir út fjölmargir dagróðrarbátar á línu. Stærsti atvinnustaðurinn í þessu 1.000 manna plássi eru beitningarskúrarnir. Þar eru að jafnaði 60 manns að beita línu. Starfið er gefandi og hægt að ná ágætis tekjum miðað við að þetta er sérhæft verkamannastarf, þá geta menn verið með sveigjanlegan vinnutíma sem fellur vel að tíma heimavinnandi og námsfólks.

Framkvæmdastjóri LÍÚ kaus að nýta tíma sem honum var gefinn í sjónvarpsfréttum RÚV í gær til að gera lítið úr línuveiðum og þá væntanlega segja stjórnvöldum óbeint hversu afspyrnuvitlaust það væri að ívilna veiðarfærum sem gengju út á að hníta beitu á öngul. Vinnubrögðum sem tilheyrðu fortíðinni, líkt og menn væru hvattir til að taka fram orf og ljá við sláttinn. Ekki rishár þessi málflutningur og því erfitt að réttlæta það að orðum sé beint að honum. Þó þykir mér rétt að benda á að sá bátahópur sem stórútgerðin reið röftum og ásakaði m.a. að þeir væru að stela frá sér ýsunni, keypti fólk til liðs við sig til að setja beitu á öngul.

Örn Pálsson
framkvæmdastjóri