Guðmundur óskar Jóni guðsblessunar

Í fréttum RÚV sl. föstudag ræddi Finnbogi Hermannsson við Guðmund Halldórsson, formann Eldingar vegna ummæla Jóns Guðbjartssonar. Vegna fjölda áskorana er fréttin birt hér.

Formáli að frétt:
Guðmundur Halldórsson formaður smábátafélagsins Eldingar á norðanverðum Vestfjörðum segir að orð Jóns Guðbjartssonar útgerðarmanns í Bolungarvík endurspegli afstöðu margra öflugra kvótaeigenda þegar þeir ætla að ná sínu fram. Jón hefur hótað bæjarstjórn Bolungarvíkur því að flytjast úr bænum með allt sitt hafurtask haldi hún áfram að styðja smábátasjómenn gagnrýnislaust.

Spyrill:
Þetta segir Guðmundur Halldórsson í kjölfar bréfs og ummæla Jóns Guðbjartssonar þar sem Jón sakar bæjarstjórnina í Bolungarvík um að styðja smábátasjómenn í því að taka fiskveiðiheimildir frá stærri bátum og flytja þær til smábáta. Oftast hafi slíkt verið kallaður þjófnaður að taka frá einum og færa öðrum.

Guðmundur:
Í þessu máli er verið að nota Jón greyið. LÍÚ, þetta eru þeirra vinnubrögð, þeir eru að beita honum fyrir sig. Jón er að hóta og það er alvara málsins, að vera að hóta. Alþingi Íslendinga er búið að gefa kvótaeigendum vægi til að hóta, það er alvarlegt mál. Jón er að tala um það að það sé verið að stela frá honum, hann nefnir það ekkert öðruvísi. Það er alveg rétt hjá Jóni, að ef að kvótalögin væru þannig að útgerðarmaðurinn ætti kvótann þá væri verið að taka af honum og þá gæti hann nefnt það hvaða nöfnum sem er. Byggðirnar áttu stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi til fiskveiðanna þegar kvótakerfið var sett á. Ber löggjafanum og framkvæmdavaldinu skylda til að rétta af þegar fer að hallast á byggðirnar.

Spyrill:
En þessir bátar eru í byggðunum líka, eins og bátur Jóns Guðbjartssonar, hann skilar sínum afla á Vestfjörðum.

Guðmundur:
Jájá, hann skilar nú sínum afla á Vestfjörðum en af því hann er að hóta Bolungarvíkurkaupstað, er ég hér nú með tölur um landanir hans í Bolungarvík. Hann er búinn að landa á síðustu þremur árum í Bolungarvík einu tonni, fimmhundruð tuttugu og sjö kílóum af slægðum bolfiski, þetta gerir rúm fimmhundruð kíló á ári. Einnig er hann búinn að landa tuttugu og sex tonnum af rækju, sem gera rúm átta tonn á ári. Ég held að það sé engin trilla í Bolungarvík svo aum þannig að þegar Jón lætur verða af þessum hótunum sínum, sem bíta náttúrulega ekki á okkur, þá munum við óska honum guðsblessunar og að honum farnist sem allra allra best. Ég hef trú á því að við Bolvíkingar, sem höfum sýnt það að við höfum risið upp þegar illa hefur árað að við bætum okkur upp þessi fimmhundruð kíló á ári sem Jón hefur landað.