3 dagar í stórfund á Ísafirði

Mikil og góð stemmning er fyrir Ísafjarðarfundinum á sunnudaginn kemur. Í Ríkisútvarpinu hafa hljómað auglýsingar undir kjörorði fundarins „Orð skulu standa“.
Sveitarfélögin eru nú hvert af öðru að lýsa yfir stuðningi við fundinn. Tálknafjarðarhreppur sendi eftirfarandi til formanns Eldingar: „Hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps fagnar frumkvæði smábátafélagsins Eldingar við boðun fundar um línuívilnun með yfirskriftinni „Orð skulu standa“ og styður fundinn heilshugar”. Þá hefur bæjarstjórn Bolungarvíkur sent frá sér yfirlýsingu þar sem ítrekaður er stuðningur við kröfu Eldingar um línuívilnun til dagróðrabáta og hvetur bæjarstjórnin Bolvíkinga og aðra áhugamenn um línuívilnun að mæta á fund Eldingar um málið á sunnudag.