Aðalfundur í smábátafélaginu Barða, Flateyri var haldinn 3. september sl. Góð mæting var hjá félagsmönnum. Örn Pálsson, Guðmundur Halldórsson í Bolungarvík og Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar mættu einnig á fundinn. Miklar umræður voru um stöðu mála varðandi sóknardagabáta um að þar yrði sett gólf í dagana, 23 dagar lágmark og loforð ríkisstjórnarflokkanna varðandi línuívilnun dagróðrarbáta og efndir í þeim málum. Fluttu Örn og Guðmundur Halldórsson góð erindi um þessi mál.
Þá kom fram gagnrýni á auknar álögur á smábáta varðandi hafnargjöld og voru menn almennt mjög óánægðir með nýja gjaldskrá. Hafnarstjórinn gerði grein fyrir þessum auknu álögum hvernig þær væru tilkomnar.
Að lokum voru samþykktar tillögur sem farið verður með á aðalfund Eldingar.