Fundarferð á félagssvæði Kletts.

Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi er undirbúningur 19. aðalfundar LS í fullum gangi. Svæðisfélögin eru hvert af öðru að halda sína aðalfundi og undirbúa sig fyrir aðalfund LS sem haldinn verður 16. og 17. október. Formaður Kletts, Pétur Sigurðsson, ákvað að fyrir aðalfund Kletts 28. september nk. yrði fundað með félagsmönnum í þeirra heimabyggð. Þannig gæfist gott tækifæri að spyrja forystuna um gang mála og efla tengsl meðal félagsmanna. Auk formanns Kletts sat Þröstur Jóhannsson stjórnarmaður í Kletti fundina ásamt formanni og framkvæmdastjóra LS.
Fundað var á Ólafsfirði, Árskógsströnd og Húsavík sl. mánudag og Akureyri, Grenivík og Grímsey á þriðjudeginum.
Skemmst er frá því að segja að afar gott hljóð var í félagsmönnum og ekki annað að heyra en þeir væru sáttir við það sem verið væri að gera. Á öllum fundunum var forystan hvött til að berjast áfram af fullum krafti við að ná fram línuívilnun í haust, ásamt því að kvika í engu frá kröfunni um lágmarksfjölda sóknardaga.