Fréttatilkynning um stórfund á Ísafirði

S t ó r f u n d u r

Orð skulu standa

Sunnudaginn 14. september kl 14:00 verður
opinn fundur í íþróttahúsinu á Ísafirði.

Á fundinum verður fjallað annars vegar um yfirlýsingu sjávarútvegsráðherra um að línuívilnun komi til framkvæmda í fyrsta lagi 1. september 2004 og hins vegar að línuívilnun komi í stað byggðakvóta. Yfirlýsingarnar eru andstæðar samþykktum ríkisstjórnarflokkanna og loforðum þeirra í kosningabaráttunni. Þá er ónefnt að þessar yfirlýsingar eru ekki í neinu samræmi við stefnuskrá ríkisstjórnarinnar um að auka byggðakvóta og koma á línuívilnun fyrir dagróðrabáta.

Á fundinum verður einnig vakin athygli á því ófremdarástandi sem nú ríkir í málefnum sóknardagabáta. Lögfest er að dögum skuli fækka niður í 10 á næstu 9 árum, eru á nýbyrjuðu fiskveiðiári 19. Brýnt er að Alþingi breyti lögum þannig að sóknardagar handfærabáta verði ekki færri en 23.

Það er markmið þessa fundar að veita þingmönnum öflugt veganesti þegar þing kemur saman í haust um að loforð um línuívilnun verði efnt og barist verði fyrir lágmarksdagafjölda sóknardagakerfisins. Alþingismenn verða að finna að kjósendur þeirra standa við bakið á þeim þegar þeir taka ákvörðun í þessum málum.

Áhersla er lögð á að fundurinn er opinn öllum og fólk hvatt til að fjölmenna.

Fundurinn verður þannig uppbyggður að frummælendur verða 7 einn frá hverjum þingflokki, sveitarstjórnarmaður og smábátasjómaður. Ræðutími er 5 – 7 mínútur.Að loknum þessum dagskrárlið verða fyrirspurnir úr sal og mun Árni Snævarr fréttamaður stjórna þeim lið. Öllum þingmönnum kjördæmisins hefur verið boðið að sitja fyrir svörum.Þá taka við frjálsar umræður og er ræðutími takmarkaður við 2 mínútur. Að lokum verður ályktun fundarins borin upp.

Búast má við miklu fjölmenni á fundinn og fólk því hvatt til að mæta tímanlega.
Undirbúningsnefnd