Marinó Jónsson Bakkafirði kosinn formaður Fonts

Aðalfundur Fonts var haldinn á Þórshöfn sl. fimmtudag. Á fundinn mættu 20 félagsmenn frá Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafirði og Vopnafirði. Fundurinn hófst með því að Einar Sigurðsson setti fundinn í fjarveru formanns, Halldórs Karels Jakobssonar. Örn Pálsson upplýsti fundarmenn um gang mála og svaraði fyrirspurnum. Eins og gefur að skilja voru grásleppumálin Fontsmönnum afar hugleikin og létu menn almennt vel af síðustu vertíð, þó veiðin hafi verið ögn minni en metárið 2002. Verðhækkun milli ára vann þann mismun upp þannig að afkoman var viðunandi. Alls var verkað í 2.767 tunnur nú á móti 3.489 á vertíðinni 2002, en þá hafði veiðin tvöfaldast frá árinu 2001.
Mikið var rætt um veiðitíma og fjölda neta. Menn veltu því fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að byrja fyrr á vertíðinni 2004 þar sem hátt hitastig sjávar gæti orðið til þess að grásleppan kæmi fyrr til hrygningar. Samþykkt var að beina því til aðalfundar LS að veiðar hæfust 20. mars frá Bakkafirði og Vopnafirði, en 10. mars frá Þórshöfn og Raufarhöfn. Full samstaða var um það á fundinum að lengd veiðitíma yrði 80 dagar í stað 90.
Þá var líkt og á fundi á Húsavík 16. september sl. umræða um fjölda neta. Fontur fer fram á að leyfilegt verði að nota 75 net á hvern mann í stað 50 eins og verið hefur í langan tíma. Þess má geta að Húsvíkingar munu leggja fram tillögu á aðalfundi Kletts nk. sunnudag um 65 net á mann.
Eins og getið er um í upphafi var Marinó Jónsson kosinn formaður Fonts í stað Halldórs Karels Jakobssonar sem gegnt hefur formennsku í Fonti sl. 5 ár.
Aðrir í stjórn Fonts eru: Hörður Þorgeirsson, Raufarhöfn, gjaldkeri, Guðmundur Lúðvíksson, Akureyri, ritari, Haraldur Sigurðsson, Kópaskeri og Stefán Björnsson, Vopnafirði.