Grein í Fiskifréttum – „Línuívilnun bjargræði fyrir netabáta“

Í dag birtist í Fiskifréttum eftirfarandi skoðunargrein eftir Örn Pálsson, undir fyrirsögninni „Línuívilnun bjargræði fyrir netabáta“

Undanfarnar vikur hefur átt sér stað stíf umræða um væntanlega línuívilnun. Nánast sleitulaust frá byrjun júlí hefur umræðuefnið átt greiða leið inn í blöð og ljósvakamiðla.
Meirihluti þeirra sem er andvígur línuívilnun hefur kosið að berja hausnum við steininn og telur það engu skipta þótt báðir stjórnarflokkarnir hafi samþykkt hana og kveðið sé á um í stjórnarsáttmálanum að hún komi til framkvæmda. Í krafti valds hafa þessir aðilar geta komið í veg fyrir framgang ýmissa málefna. Fyrrgreindar samþykktir og loforð gera þeim þó erfitt fyrir og má því búast við neistaflugi þegar málið kemur til afgreiðslu á Alþingi innan nokkurra mánaða.

Gömul tugga

Annar hópur andstæðinga línuívilnunar lýsir gremju sinni á þann veg að með ívilnuninni skuli enn vera seilst í aflaheimildir þeirra og þær færðar til smábátaeigenda. En er verið að leggja það til? Nei, slík skrumskæling á tillögunni er ættuð frá hagsmunasamtökum útgerðarmanna stærri skipa. Gömul tugga sem hefur jú veitt nokkuð vel og þá kannski ekki ástæða til að skipta um beitu. Veiðin hefur þó sjaldnast skilað fullunninni vöru eins og línuívilnunin mun gera.

Valkostur fyrir alla

Staðreyndin er sú að línuívilnun þarf ekki að hafa nein áhrif á aflahlutdeild. Engum kvóta er úthlutað sérstaklega vegna línuívilnunar. Línuívilnun kviknar ekki fyrr en landað er, hún er valkostur fyrir alla og ekki hægt að ráðstafa nema með veiðum. Í staðinn fyrir tonn af þorski sem kom upp úr bátnum eru 800 kg dregin frá kvóta bátsins. Hvaðan eru þessi 200 kg tekin, er spurt, sem gætu orðið 4.000 tonn miðað við þorskafla á línu fiskveiðiárið 2001/2002. Svarið er: Þetta er óvissa í kerfinu — 1,9% umfram útgefinn heildarafla er ekkert til að hafa áhyggjur af. Þá hefur það ekki verið metið línunni til tekna að hún veiðir úr fleirum árgöngum en önnur veiðarfæri og ekki er mismunur á því sem veitt er og komið er með að landi.

,,Það sem einum er rétt…”

Það var í ráðherratíð Þorsteins Pálssonar sem inn í lög um stjórn fiskveiða var látið ákvæðið sem ég kýs að kalla: Það sem einum er rétt er frá öðrum tekið. Ákvæðið er í 7. gr. og kveður á um að áður en leyfðum heildarafla er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skuli draga frá:
1. Áætlaðan afla báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum, 2.100 tonn í þorski.
2. Aflaheimildir sem nota skal til jöfnunar,
7.630 tonn í þorski, 2.661 í ýsu, 1.408 í ufsa og 1.354 í steinbít.
3. Aflaheimildir sem Byggðastofnun ráðstafar, 1.194 tonn í þorski, 428 í ýsu, 286 í ufsa og 91 í steinbít.

Ákvæðið var og er umdeilt og hefur litlu skilað öðru en hnútukasti og öfund og alls ekki ábætandi að áætlaður afli vegna línuívilnunar verði settur þar inn.

Hvað breytist við línuívilnunina?

Aukið magn af ferskum fiski kemur að landi. Jákvætt.

Útflutningsverðmæti sjávarfangs eykst. Jákvætt.

Atvinna í landi eykst. Jákvætt.

Engum er úthlutað aukningu fyrirfram, hann verður að veiða svo ívilnun kvikni. Jákvætt.

Línan veiðir eingöngu fisk í ætisleit og friðar því hinn hlutann. Jákvætt.

Vægi umhverfisvænna veiða eykst. Jákvætt.
Fleiri árgangar nýttir. Jákvætt.

Netamönnum hjálpað

Staða netaveiðimanna í dag er ekki upp á marga fiska –lækkað fiskverð, fyrirsjáanlegar takmarkanir á stærð möskva og þess sífellt krafist að lengja hrygningarstoppið. Er ekki kominn tími til að horfa til línuívilnunarinnar sem bjargræðis vegna þessara takmarkana. Berjast fyrir því að fá aðstoð til að skipta yfir á línu. Ég gæti séð það sem leið að þeir aðilar sem það gerðu fengju ekki 20% ívilnun í þorski eins og barist hefur verið fyrir til handa þeim sem nú eru á línu heldur 30% til að byrja með. Ég er sannfærður um að slík krafa mundi eiga sér hljómgrunn og athugið að línuívilnun er ekki eingöngu fyrir smábáta.

Þrengt að netaveiðum

Þetta má þó ekki skilja sem svo að ég sé á móti netaveiðum. Síður en svo. Notuð eru kyrrstæð veiðarfæri, veiðarnar ódýrar, veiða aðeins fisk yfir viðmiðunarmörkum og hafa lengst af gefið vel í aðra hönd. Takmarkanir hafa þrengt að arðsemi veiðanna — tonn á móti tonni viðskipti orðin erfið, krafa gerð um lengingu á hrygningarstoppi og vaxandi hljómgrunnur fyrir því að bannað verði að veiða með netum sem eingöngu veiða stærsta fiskinn og þar með þann elsta.
Af þessu dreg ég þá ályktun að eitthvað mikið þurfi að koma til svo netaveiðar nái þeim sessi sem þær höfðu hér á árum áður. Því miður sést ekki til lands í þeim efnum.

Flestir þeir sem stunda netaveiðar eru aðilar sem ekki má missa úr útgerð. Aflameðferð, þekking á miðunum og hagkvæmni í útgerð hjá þeim er oftast til fyrirmyndar og því ekkert athugavert við það að aðstoð sé veitt til að skipta yfir á línu. Þar er ég viss um að þeir myndu kunna vel við sig. Verið velkomnir í þann hóp sem berst fyrir aukinni hlutdeild krókaveiða.

Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda

Munu orð standa?”