Í Fiskifréttum 17. júlí sl. birtist eftirfarandi grein eftir Þorvald Garðarsson formann Árborgar og stjórnarmann í Landssambandi smábátaeigenda
„Mistök við stjórnun fiskveiða
Það er ekki skynsamlegt
að þurrka upp smáýsuna
Eftir að aflamark í þorski var skorið niður um þriðjung fyrir um það bil ári síðan var tekin sú vafasama ákvörðun að nú skyldi flotanum beint miskunnarlaust á ýsustofninn.
Allir skyldu bæta sér upp þorskskerðinguna með veiði á ýsu og hún hundelt hvar sem til hennar næðist. Viðmiðunarmörk fyrir skyndilokanir voru lækkuð og opnað fyrir togveiðum þar sem áður hafði verið lokað fyrir þeim veiðiskap. Jafnframt var snurvoðarbátum hleypt upp í fjöru á stórum svæðum þar sem áður var lokað innan við 3 mílur.
Furðuleg afstaða Hafrannsóknastofnunar
Ég hef furðað mig á þeirri afstöðu Hafrannsóknastofnunar að ganga fram með þessum hætti, ekki síst vegna þess að síðustu mánuði og misseri hefur mér fundist ýsan fara mjög hratt smækkandi og veiðin minnkandi.
Það er mín skoðun að sú ákvörðun Hafrannsóknastofnunar að mæla með opnun fyrir snurvoðarveiðum upp í fjöruborð við suðurströndina milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja sýni svo ekki verður um villst að stofnuninni er ekki treystandi fyrir því verkefni sem hún hefur í dag varðandi ráðgjöf til stjórnvalda vegna stjórnunar fiskveiða.
Það er ekki tilviljun að ítrekað hefur verið lokað fyrir togveiðum og snurvoðarveiðum á umræddu svæði síðustu áratugi, reynslan hefur kennt mönnum að þessar veiðar eru skaðlegar ýsustofninum og óskynsamlegar.
Álit sjómanna virt að vettugi
Þeir menn sem nú stjórna málum í Hafrannsóknastofnun hafa hins vegar markað þá stefnu að hafa að engu áratuga reynslu manna í þessum efnum. Þeir virða að vettugi varnaðarorð og upplifun þeirra sem stunda veiðar á þorski og ýsu á miðunum allt í kringum landið.
Þorskstofninn virðist afar öflugur og þorskveiði betri en elstu menn muna. Þorskkvótinn er hins vegar skorinn niður um þriðjung þvert á reynslu manna á miðunum og lítið gert úr áliti sjómanna. Hins vegar er flotanum beint af miklu afli á smáýsu þrátt fyrir viðvaranir sjómanna og afgerandi merki um að ýsustofninn sé að gefa verulega eftir.
Ég get ekki annað en lýst þeirri skoðun minni að ég tel þá menn sem nú stjórna Hafrannsóknastofnun og hafa markað þessa stefnu ekki starfinu vaxna og að nú sé kominn tími til að fá nýja menn í brúna á þeim bæ.
Áskorun til sjávarútvegsráðherra
Ég vil að lokum skora á sjávarútvegsráðherra ,Einar K. Guðfinnsson, að loka aftur fyrir snurvoðarveiðum svæðinu innan við 3 mílur við suðurströndina fyrir haustið svo ekki endurtaki sig sömu mistökin og gerð voru síðastliðið haust og vetur þegar snurvoðarflotinn hópaðist í smáýsuveiðina þar upp í fjöruborð. Ég tel einnig að hann ætti að hækka aftur í fyrra horf viðmiðunarmörk ýsu varðandi skyndilokanir.
Það er mín skoðun að heimskulegt sé að fórna góðum árangri sem náðst hefur við uppbyggingu ýsustofnsins. Það er ekki hagur sjómanna, það er ekki hagur útvegsmanna og það er ekki hagur þjóðarbúsins. Stjórnvöld mega ekki loka augunum fyrir áratuga reynslu. Þau mega ekki láta reynslu manna og upplifun af ástandinu sem vind um eyru þjóta.
Höfundur er skipstjóri og útgerðarmaður í Þorlákshöfn.“