Báran – félag smábátaeigenda í Hafnarfirði og Garðabæ – hélt aðalfund sinn laugardaginn 22. september sl. Á fundinum var þung undiralda vegna ákvörðunar stjórnvalda að minnka þorskveiðiheimildir um þriðjung. Fundarmenn voru ósáttir við að Hafrannsóknastofnun tæki ekki lengur mark á upplýsingum úr afladagbókum og netaralli við útreikninga á stærð veiðistofns. Vegna þessa og ýmissa annarra upplýsinga sem fram komu á fundinum væri fyllsta ástæða til að efast um niðurstöður, enda þær í engu samræmi við reynslu félagsmanna af ástandinu.
Á fundinn barst sú frétt að sjávarútvegsráðuneytið hefði í skjóli nætur gert breytingar á fyrirkomulagi dragnótaveiða í Faxaflóa. Ýsa væri ekki lengur talin sem meðafli við veiðarnar. Félagsmenn töldu þessa ákvörðun ráðuneytisins, sem hvergi hafði verið greint frá, geta orðið til þess að grundvöllur útgerða margra smábáta í Faxaflóa í haust væri brostin. Fundurinn samþykkti að mótmæla ákvörðuninni harðlega, jafnframt að lýsa undrun sinni með að ekki hefði verið leitað umsagnar hjá Bárunni áður en svo umdeild ákvörðun væri tekin.
Stjórn Bárunnar var öll endurkjörin, en hana skipa eftirtaldir:
Gunnar Pálmason Garðabæ, formaður
Guðbrandur Magnússon Garðabæ, gjaldkeri
Jón Þorbergsson Kópavogi, ritari.
Fulltrúi Bárunnar í stjórn LS er formaður félagsins Gunnar Pálmason