Aðalfundur Hrollaugs – andvígur línuívilnun og byggðakvóta

Að venju var aðalfundur Hrollaugs haldinn 27. september, en á þeim degi hefur hann verið haldinn frá stofnun félagsins árið 2000.
Í forföllum formanns Gísla Geirs Sigurjónssonar flutti Unnsteinn Guðmundsson skýrslu stjórnar. Þar gat hann þess að formannsskipti hefðu orðið á miðju starfsári er fráfarandi formaður Snorri Aðalsteinsson ákvað að hætta útgerð. Snorra voru þökkuð góð störf fyrir félagið og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Að venju hélt Hrollaugur veglega árshátíð. Félagsmenn ásamt mökum skelltu sér til Halifax. Góður rómur var gerður að ferðinni og er ferðanefnd félagsins þegar byrjuð að líta kringum sig varðandi næstu reisu.HofnSaevarMakrill1-80-07100.jpg

Að lokinni skýrslu stjórnar og samþykkt ársreiknings flutti Örn Pálsson erindi og fór yfir helstu málefni sem LS vinnur nú að. Hann staldraði einkum við uppkast af kjarasamningi og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Margir félagsmenn voru ekki sammála tillögum LS um hámarksafla í þorski, sögðu lítið vera af honum á þeirra veiðislóð. Aftur á móti væri mikið af ýsu og væri 2003 árgangurinn þar mest áberandi.Fundur Hofn2-8019-07100.jpg

Á fundinum voru fjölmargar ályktanir samþykktar. Meðal þeirra voru:

1. Aðalfundur Hrollaugs vill að línuívilnun og byggðakvóti verði tafarlaust slegin af.
Greinargerð: Smábátasjómönnum á Höfn finnst felast mikil mismunun í byggðakvóta og á engan hátt réttlætanlegt að taka heimildir af einum og færa öðrum.
Hornfirðingar hafa aldrei fengið byggðakvóta né nýtt línuívilnun og finnst
hart að á meðan menn eru að kaupa veiðiheimildir að af þeim sé tekið í sértækar aðgerðir til að færa öðrum.

2. Aðalfundur Hrollaugs skorar á stjórnvöld að banna allar togveiðar innan 6 mílna frá landi.
Greinargerð: Trillukarlar á Höfn lýsa þungum áhyggjum af aukinni sókn með trolli, svokallaðra „3 mílna báta“. Botntrollsveiðar uppí harða landi árið 2007 eru í algjöru ósamræmi við gildandi sjónarmið við umgengni við lífríkið. Vakin er athygli á að hér er ekki um neina „tappatogara“ að ræða heldur mjög öflug fiskiskip.

3. Aðalfundur Hrollaugs krefst þess að sjávarútvegsráðherra heimili engar flottrollsveiðar þar til sýnt þykir að þær skaði ekki lífríkið.UnnsteinnThrains2-8027-07100.jpg

Á fundinum var kosin ný stjórn:

Unnsteinn Þráinsson formaður
Grétar Vilbergsson gjaldkeri
Friðþór Harðarson ritari

Formaður Hrollaugs var kjörinn fulltrúi félagsins í stjórn LS í stað Unnsteins Guðmundssonar sem ekki gaf kost á sér. Stjórn félagsins þakkaði Unnsteini fyrir vel unnin störf í þau níu ár sem hann hefur setið sem fulltrúi þeirra í stjórn LS.

Myndir:
Sævar SF annar tveggja smábáta sem útbúinn hefur verið til markrílveiða

Frá aðalfundi Hrollaugs

Unnsteinn Þráinsson formaður Hrollaugs