Allt loðið af þorski frá Fonti og suður að Gerpi

Aldrei hefur verið jafn erfitt og nú að forðast þorskinn segir Ólafur Hallgrímsson á Borgarfirði. Hér eru dæmi um að veiðst hafi á handfæri 1,8 tonn á 6 klst. Allt boltaþorskur 5 – 6 kg meðalþyngd.

Þorskurinn er vel á sig kominn fullur af síld og makríl. En það virðist ekki duga honum því hann veiðist einnig vel á línuna. Þar eru dæmi um að menn séu að fá 400 kg á bjóð. Því miður eru ekki margir hér sem geta leyft sér þann munað.

Flestir eru að reyna að forðast þorskinn og eina skjólið er uppi í fjöru, en þar er hann einnig að finna en þá oftast sem drasl með ýsunni eins og Ólafur komst að orði.