Ályktun aðalfundar LS 2008

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda (LS)
haldinn 23. og 24. október 2008 í Turninum í Kópavogi ályktar eftirfarandi:

 

Eftir gengishrun krónunnar með fyrirsjáanlegu
atvinnuleysi og hraðvaxandi verðbólgu stendur smábátaútgerðin í fullkominni
óvissu um framtíð sína, líkt og sjávarútvegurinn í heild og flestar atvinnugreinar
í landinu. 

 

Ofan á bætist að vísindamenn
Hafrannsóknastofnunarinnar harðneita að taka minnsta mark á þeirri eindregnu
skoðun veiðimanna, hringinn í kringum landið, að ástand þorskstofnins gefi
ekkert tilefni til að skera veiðiheimildir niður fyrir öll söguleg
lágmörk. 

 

Ekki einu sinni gögn stofnunarinnar sjálfrar
réttlæta þennan niðurskurð.  Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til 160 þúsund tonna hámarksafla þorsks fyrir síðasta
fiskveiðiár.  Sú stofnun er þekkt
af öllu öðru en frjálslyndum tillögum varðandi veiðiheimildir.  Þetta mun í eina skiptið sem farið er
undir hennar tillögur um aflamörk. 
Hafrannsóknastofnunin skuldar þjóðinni skýringar á því hvaða vitneskju
hún bjó yfir varðandi íslenska þorskstofna, sem Alþjóðahafrannsóknaráðinu var
ókunnugt um.

 

Fundurinn krefst þess að þorskkvóti verði
aukinn nú þegar og það verulega.

 

Kaupendur íslenskra sjávarafurða gera sífellt
harðari kröfur um hvernig fiskur er veiddur og að hann sé
umhverfismerktur.  Áhugi kaupenda
beinist í vaxandi mæli að kyrrstæðum veiðarfærum.  Það skýtur því herfilega skökku við að dragnótaveiðar eru í
stórauknum mæli stundaðar inná flóum og fjörðum á skipum sem eru jafnvel
fullvaxnir togarar.  Þá hefur orðið
mikil fjölgun öflugra togara sem geta samkvæmt núgildandi reglum veitt upp að 3
mílum.  

 

Við tillögugerð sína um aflamörk segist
Hafrannsóknastofnunin verða að sýna fyllstu varkárni til að halda
trúverðugleika.  Framangreind þróun
virðist hins vegar valda stofnuninni litlum áhyggjum.

 

Þessu mótmælir LS harðlega og krefst þess að
dragnótaveiðar verði færðar út fyrir 3 mílur frá ströndum landsins sem og að
færa togveiðar umsvifalaust út fyrir 12 mílur.   

 

Fyrirsjáanlegir eru miklir erfiðleikar í
smábátaútgerð.  Hrikaleg hækkun
erlendra lána og allra aðdrátta hafa gert rekstrarumhverfi stórs hluta hennar
með öllu vonlausa.  Smábátaútgerðin
er lífæð fjölmargra sjávarþorpa, allt í kringum landið.  Það er skilyrðislaus krafa fundarins
að stjórnvöld tryggi að svo verði áfram.

Aðalfundur LS beinir því til stjórnvalda að
þau geri umsvifalaust ráðstafanir um raunhæfa aðlögun lána að því
rekstrarumhverfi sem framundan er í smábátaútgerðinni.  Frysting lána er skref í áttina, en
aðeins skammtímalausn.

 

Fundurinn krefst þess að línuívilnun verði
hækkuð verulega og breytt í krókaívilnun sem nái til allra dagróðrabáta sem
stunda línu- og handfæraveiðar. 

 

Þá bendir fundurinn á að innheimta
auðlindagjald af sjávarútveginum við ríkjandi aðstæður er bókstaflega fáránleg.

 

Til skamms tíma var sjávarútvegurinn
mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. 
Þó hann hafi glatað forystu sinni um stund, er hann að öðlast það
hlutverk á nýjan leik. 

 

Á hálfum áratug, í þúsund ára sögu
þjóðarinnar, taldi hún sig hafa fundið nýja og endalausa uppsprettu auðs og
velmegunar.  Galdurinn fólst í að
rétta hvort öðru pappíra fram og til baka, sem augljóslega auka mjög við það verðgildi
sitt.   Hún varpaði fyrir róða
áhuganum á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.  Litlu sjávarþorpin voru gleymd og fyrirlitin, minnisvarðar
fortíðar. 

 

Það er kominn tími til að snúa þessari þróun
við.

 

 

 

 

 

,

Ályktun stjórnar Landssambands smábátaeigenda”


Uppskriftir