Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
Stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn í Reykjavík hinn 7. mars 2008 ályktar eftirfarandi:
Stjórn Landssambands smábátaeigenda fagnar þeirri kúvendingu sem átt hefur sér stað í samskiptum Hafrannsóknastofnunarinnar við þá sem starfa á miðunum við fiskveiðarnar. Hingað til hafa sjónarmið fiskimanna verið léttvæg fundin þegar þeir hafa dregið stofnstærðamælingar í efa.
Nú var hins vegar, með stuttum fyrirvara, hleypt af stokkunum samræmdu átaki vísindamanna og fiskimanna í kjölfar harðrar gagnrýni þeirra síðarnefndu á mælingar loðnustofnsins. Aðeins tók fáeina sólarhringa að komast að því að þeir höfðu rétt fyrir sér og telja verður að ákveðin gjá sem verið hefur á milli aðila hafi að einhverju leyti verið brúuð með þessu sameiginlega verkefni.
Þessi stefnubreyting er sérstakt fagnaðarefni í ljósi þess að stærstur hluti þeirra fiskimanna sem stunda bolfiskveiðar á grunnslóð hafa til margra ára verið mjög ósáttir við mat Hafrannsóknastofnunarinnar á stærð þorskstofnsins.
Þorskstofninn er margfalt verðmætari þjóðarbúinu en loðnustofninn og því treystir stjórn LS því að hið fyrsta verði farið í hliðstætt átaksverkefni vísindamanna og fiskimanna hvað varðar þorskstofninn.
Eitt af því sem knúði á um að loðnustofninn yrði mældur á ný var sú staðreynd að nokkur bæjarfélög treysta mjög á vinnslu loðnuafurða. Þau eru þó sárafá, miðað við fjölda þeirra sjávarbyggða sem byggja afkomu sína á þorskveiðum.
Stjórn LS skorar á hstv. sjávarútvegsráðherra að bregðast skjótt við í þessu máli. Hinn mikli niðurskurður þorskveiðiheimila er í reynd að draga síðustu lífsmörkin úr fjölmörgum hinna minni samfélaga.