Í Fiskifréttum sem út komu sl. fimmtudag 25. september og dreift verður á sjávarútvegssýningunni er eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson:
„Þegar sú ískalda staðreynd blasir við öðru sinni að ekki verði heimilt að veiða meir en 130 þúsund tonn af þorski á heilu fiskveiðiári reynir maður enn á ný að rýna í tölur í ársskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Tilgangurinn er augljós – finna verður leið til að sannfæra stjórnvöld um að nauðsynlegt sé að endurskoða ákvörðunina strax. Fyrir utan að stangast algjörlega á við upplifun sjómanna og útgerðarmanna á ástandinu á miðunum hefur ákvörðunin gríðarlega neikvæð áhrif á sjávarútveginn og þjóðfélagið allt.
Hvað getur maður gert annað en að hætta?
Fyrir réttu ári þegar umrædd ákvörðun um skerðingu þorskkvótans var tekin voru boðaðar mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda sem skyldu ná til hinna dreifðu byggða. Lækkun á aflagjaldi var ein þessara aðgerða og skilaði hún sér til útgerðarinnar. Stjórnvöld lýstu ákvörðunina erfiða en nauðsynlega og bentu á hið gamalkunna að brýnt væri að hagræða.
Nú er undirritaður að upplifa að sú bjartsýni sem einkennt hefur sjávarútveginn og unnið hefur bug á öllum þrengingum hingað til er ekki til staðar lengur. Menn segja sem svo: „Á liðnum árum hef ég lagt allt í að bæta við mig veiðiheimildum í þorski, þær hef ég keypt fyrir gríðarlegar upphæðir. Ákvörðunina tók út frá vissu minni um gott ástand þorskstofnsins. Stjórnvöld taka ekki mark á skoðunum okkar um sterkan þorskstofn. Hvað getur maður gert annað en að hætta og reyna að sleppa á sléttu?“
Neikvæð umræða um sjávarútveginn
Þegar þessi skírskotun er tekin lengra er upplifunin sú að farnir eru út úr útgerð aðilar sem þjóðin má ekki við að missa svo hún fái auðlindina nýtta til verðmæta á sem hagkvæmastan hátt. Því miður álít ég að þessi menn komi ekki aftur. Þeir hafa tekið ákvörðun um að snúa sér að öðru.
Ofan á ákvörðun stjórnvalda, sem tekin er á þeirri forsendu að virða aðeins sjónarmið annars aðilans, bætist við endalaus neikvæð umræða um sjávarútveginn. Ákveðnum þjóðfélagsöflum vex frekar ásmegin við að níða niður höfuðatvinnuveg þjóðarinnar, fátt jákvætt á þeim bæjum í garð þeirra sem eru bestir í að gera verðmæti úr nytjastofnum á Íslandsmiðum – „sameign íslensku þjóðarinnar“.
Við framangreint bætast gríðarlegar þrengingar á nánast öllum sviðum í efnahagslífi þjóðarinnar. Málefnið þolir enga bið, það er engin áhætta tekin með því að auka þorskkvótann um tugi þúsunda tonna.
Útreikningar Hafró
Í upphafi þessarar greinar minntist ég á rýni í árskýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar. Fyrir réttu ári benti ég á að meðalþyngdir elstu árganga þorsksins í skýrslunni gætu ekki staðist, þær væru einfaldlega rangar. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar bentu á að þetta skipti ekki máli þar sem um svo fáa fiska væri að ræða að það hefði óveruleg áhrif á útreikninga á stærð veiðistofnsins. Undirritaður ítrekaði skoðanir sínar og sagði að ef þarna væru villur þá væri ástæða til að ætla að fleira væri athugavert enda himinn og haf milli skoðana þeirra sem á miðunum starfa og sérfræðinga stofnunarinnar. Einnig benti ég á að það munaði um hvert tonnið í útreikningunum. Mér vitanlega fór ekki fram athugun á réttmæti þess.
Í nýrri skýrslu Hafró sem út kom í júní sl. eru tölur sem sýna að undirritaður hefur haft nokkuð til síns máls. Þar hafa meðalþyngdir elstu árganganna verið endurmetnar og auknar um tugi prósenta. 10 ára þorskur sem áætlaður var 9-8-5 kg er nú skráður 1-4-6 kg, aukning upp á 11,4%. Sömu tölur fyrir 11 ára þorsk er aukning upp á 15,2%, fyrir 13 ára fisk um 44% og 14 ára fiskur er nú skráður 3-1-10 kg en var 3-9-6 kg, aukningin er rúm 46%.
Ráðgjöf sem stjórnvöld byggja á við ákvörðun sem hefur svo afdrifaríkar afleiðingar sem hér hefur verið lýst þarf að vera að vera betur unnin en svo að augljósar veilur séu ekki tafarlaust leiðréttar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.“