Borðum meiri fisk

Í dag hófst átakið „Borðum meiri fisk“. Lýðheilsustöð og Landssamband smábátaeigenda kynntu átakið á fundi í Sægreifanum nú í morgun.

Markmið átaksins er:
• Að fá Íslendinga – einkum ungt fólk – til að borða meiri fisk.
• Að á heimilum landsmanna verði fleiri fiskmáltíðir á borðum – að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku. 

Leið:
• Uppskriftum að hollum og ljúffengum fiskréttum miðlað til landsmanna og þeim þannig auðveldað að matreiða fisk á einfaldan, bragðgóðan og fjölbreyttan máta.

Bætum mataræðið – borðum meiri fisk – að minnsta kosti tvisvar í viku

Fiskneysla á Íslandi hefur dregist verulega saman, sérstaklega hjá ungu fólki. 
Þetta er áhyggjuefni því fiskur er mjög hollur og margir telja að það sé einmitt fiskinum og lýsinu að þakka hversu heilsuhraust og langlíf þjóðin hefur verið.

Þjóðin þarf að bæta úr þessu með því að vera dugleg að matreiða fisk á sem fjölbreyttastan hátt, bæði sem hversdags- og veislumat. Það þarf ekki að taka langan tíma að lokka fram girnilega og bragðgóða fiskmáltíð og þannig kenna börnunum okkar – og allri fjölskyldunni – að meta góðan fisk.

Uppskriftabæklingur með 20 auðveldum og ljúffengum fiskuppskriftum verður sendur á hvert heimili landsins. 

Lýðheilsustöð og Landssamband smábátaeigenda vona að þetta muni stuðla að því að fiskur sé oftar á borðum landsmanna – að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku.