Brimfaxi félagsblað Landssambands smábátaeigenda er komið út. Í leiðara blaðisins sem Örn Pálsson ritar kemur meðal annars fram að þorskur seldur á fiskmörkuðum hefur hækkað um 32 % milli ára. Leiðari Arnar er eftirfarandi:
„Gleðilegt ár ágætu félagsmenn
og þakka ykkur liðið!
Það er við hæfi að byrja árið 2008 af krafti þar sem ég hvet ykkur til að álykta um áskorun til sjávarútvegsráðherra og stjórnvalda um tafarlausa aukningu þorskkvótans. Fréttir af aflabrögðum á nýbyrjuðu ári gefa tilefni til góðrar vertíðar en ekki ördeyðu eins og lesa má út úr skýrslum Hafrannsóknastofnunarinnar sl. sumar. Það sem þar kom fram er ekki að ganga eftir og því forsendur fyrir þriðjungs niðurskurði veiðiheimilda í þorski brostnar.
Minnkun þorskkvótans hefur nú þegar haft gríðarleg áhrif. Veiðiheimildir sem fjárfest var í sl. fiskveiðiár mynda engar tekjur á þessu ári eingöngu útgjöld, sem næg voru fyrir. Þetta hefur orðið til þess að staða einstakra útgerða er afar erfið og dæmi um að menn hafi neyðst til að hætta. Það er grátlegt að horfa upp á slíkt þegar ákvarðanir um kaup á meiri veiðiheimildum voru teknar á grundvelli á ástandi þorskstofnsins, upplifun þeirra sem ávallt eru á miðunum þegar gefur á sjó.
Mörgum hefur orðið tíðrætt um tíðarfar það sem af er fiskveiðiári. Algengt er, þegar spurt er um aflabrögð, að fá það svar að erfitt sé að segja til um þau þar sem aldrei sé hægt að róa tvo til þrjá róðra í beit. Alltaf sé verið að fara í fyrsta róður. Það fylgir þó ávallt með í samtölunum að almenn ánægja ríkir með verð á þorski sem af er fiskveiðiári. Við skoðun á meðalverði á fiskmörkuðum kemur í ljós að verð á þorski var 32% hærra á fyrsta þriðjungi fikveiðiársins miðað við sama tíma í fyrra og 2% hærra í ýsunni.
Þegar þetta er ritað standa fyrir dyrum fundir í svæðisfélögum LS um kjarasamning félagsins við sjómannasamtökin. Aðdragandi þessa samnings er kominn á þriðja ár. Fyrirspurnir á Alþingi og krafa sjómannasamtakanna um samninga ýttu mjög á málefnið auk þess sem fjölmargir félagsmanna óskuðu eftir að gerður yrði samningur. Málið fór í hefðbundinn farveg, kynning í svæðisfélögum og umboð frá aðalfundi. Afraksturinn leit svo dagsins ljós 21. desember síðastliðinn þegar samninganefnd LS og sjómannasamtökin rituðu undir fyrsta kjarasamning LS á landsvísu.
Félagsmenn taka svo ákvörðun um samninginn á áðurnefndum fundum hvort hann verði samþykktur eða honum hafnað.
Á undanförnum dögum hafa komið fyrirspurnir um komandi grásleppuvertíð. Hvort ekki verði hægt að bæta sér veiðiheimildamissi í þorski með góðri vertíð á þeirri gráu. Eins og fyrri ár er erfitt að segja til um það, en þar sem verð á grásleppuhrognum í fyrra var í lágmarki og veiði innan eftirspurnar má gera ráð fyrir að verð stigi lítið eitt á komandi vertíð. Rétt er þó að hafa hugfast að taka ekki ákvörðun um að hefja veiðar fyrr en fyrir liggur verð og það magn sem væntanlegur kaupandi óskar eftir.
Ágætu félagsmenn! Það er von mín að árið megi verða ykkur gjöfult og baráttuandi sem einkennt hefur ykkur megi fleyta mönnum yfir þá erfiðleika sem samdráttur í þorskveiðiheimildum veldur.“