Búið að merkja 800 hrognkelsi

Hrognkelsaverkefni BioPol á Skagaströnd gengur vel. Að sögn Halldórs G. Ólafssonar framkvæmdastjóra BioPol er búið að merkja 800 hrognkelsi, mestmegnis grásleppur en einnig nokkra rauðmaga. Ætlunin er að merkja 2000 hrognkelsi á vertíðinni.

Eins og við mátti búast hafa nokkrar grásleppur endurheimst nú þegar. Sjómenn hafa skilmerkilega skráð niður veiðistað og sleppt þeim síðan. Upplýsingum er síðan komið til BioPol.

Það hefur vakið mikla athygli að endurheimtur hafa átt sér stað langt frá merkisstað, því búast mátti við að sú gráa mundi hrygna skammt frá þeim stað sem hún veiddist á. Þessu virðist öðruvísi farið, því dæmi er um grásleppu sem merkt var útaf Hvalnesi á Skaga, hafi skilað sér í net við Látraströnd sex sólarhringum síðar.

Áður fjallað um verkefnið:
http://www.smabatar.is/frettir/15-04-2008/1195.shtml