Dragnótaveiðar – sjávarútvegsráðherra hunsar óskir Skagfirðinga

Eftirfarandi grein eftir Steinar Skarphéðinsson, birtist í Morgunblaðinu í gær 29. desember.

Dragnót – veiðar erlendra skipa

Sjávarútvegsráðherrann okkar, Einar K. Guðfinnsson, er býsna pennaglaður þessa dagana enda styttist í kosningar. Samt sem áður forðast hann að tala um það sem nær honum snýr, það er að segja sjávarútveginn á Íslandi að undanskildum hvalveiðum og veiðum erlendra skipa sem eru langt fyrir utan okkar 200 mílna lögsögu sem hann flokkar undir sjóræningaveiðar sem vel má vera.

Hvernig væri nú að líta sér nær og ræða ástand sjávarþorpa vítt og breitt um landsbyggðina sem svift hafa verið lífsviðurværi sínu með því fáránlega fyrirkomulagi sem núverandi kvótakerfi hefur í för með sér? Síðan er hnífnum snúið í sárinu með því að hleypa dragnótabátum upp í fjörur inn á flestum fjörðum og flóum landsins með þeim hörmulegu afleiðingum sem dragnótin hefur í för með sér varðandi botngróður og lífríki sjávar.Steinar Skarph9-57-100.jpg

Sjóræningjaveiðar á grunnslóð

Í Skagafirði hafa undanfarin ár verið stundaðar dragnótaveiðar all hömlulaust og síðasta sumar tók nú steininn úr. Alls stunduðu meira og minna tíu dragnótabátar veiðar á firðinum, að stórum hluta innan við eyjar og nánast inn í fjarðarbotn. Einnig hefur stærð dragnótabáta farið vaxandi og eru nú sumir dragnótabátar á stærð við minni gerð skuttogara. Dæmi: KLÆNGUR ÁR20 sem er 38 metra langur, 299 brúttótonn, 913 hestöfl og togkraftur 13,2 tonn. Þessum bát hefur nú verið flaggað á Skagafjörð undir nafninu MARGRÉT SK20. (Hegranes SK2, fyrsti skuttogari Skagfirðinga, var 38 metra langur með 1060 hestafla vél.)

Þessi veiðiskapur telst löglegur, en að margra mati siðlaust athæfi sem flokka ætti með sjóræningaveiðum. Þetta er nú samt látið viðgangast í skjóli sjávarútvegsráðuneytisins og ráðherra. Þrátt fyrir að 400 manns hafi skrifað undir áskorun um að banna þessar veiðar, samþykki sveitarstjórnar og fundi með ráðherra hefur ekkert fengist aðgert.

Eftir stendur auðnin ein

Hvað segja fiskifræðingar um þessi vinnubrögð nú þegar fiskistofnar eiga erfitt uppdráttar? Vissu þeir kannski ekkert um það þegar dragnótabátar voru að rótast í klakfiski á Húnaflóa fyrir innan Blönduós síðasta vor? Eða er kannski allt í lagi að umgangast viðkvæmar uppeldisstöðvar með þessum hætti.

Skagafjörður var að komast á það stig að vænlegt var að stunda þar bæði handfæra- og línuveiðar og stefndi í að þar gæti í framtíðinni orðið sjálfbærar vistvænar veiðar. Sú von er nú fyrir borð borin þar sem dragnótabátar hafa skrapað fjörðinn þannig að ekkert er að hafa. Aðkomubátar sem stunduðu línu- og handfæraveiðar eru allir farnir og heimamenn búnir að gefast upp og í þann veg að selja frá sér kvótann.

Sömu sögu er að segja um aðkomubáta sem voru á dragnót. Þeir eru farnir, enda allt upp urið og ekkert að hafa lengur, eftir stendur auðnin ein.

Ríkisstjórnin, að tillögu Einars K, hefur ákveðið að setja á fót starfshóp til að fara yfir hvaða breytingar þurfi að gera á íslenskri löggjöf til að geta tekið fastar á svokölluðum sjóræningjaveiðum vegna örfárra veiðiskipa einhvers staðar út í ballarhafi og skal hún vinna hratt og vel. Hvernig væri nú að byrja á heimavinnunni og setja á fót starfshóp til þess að kanna hvaða áhrif dragnótaveiðar, og það upp í landsteina, hafa á lífríki sjávar, nýliðun og uppeldisstöðvar fiskistofna. Til þess að þessi nefnd geti unnið að heilindum og skilað marktækum árangri þyrftu fleiri aðilar að koma að henni en LÍÚ og Hafró.

Skagafjörður jafnmikilvægur og Faxaflói

Reglugerð um dragnótaveiðar útgefin af sjávarútvegsráðuneytinu er í 11 greinum og er 5. grein sérstaklega bundin við dragnótaveiðar í Faxaflóa. Þar gilda þær reglur að bátar mega ekki vera lengri en 22 metrar, sem er góð ákvörðun, en þegar kemur að öðrum fjörðum og flóum landsins má allt í einu lengd dragnótabáta fara upp í 42 metra og vélarstærð 1200 hestöfl (aflvísir 2500). Þetta er fráleitt og með ólíkindum að nokkur maður skuli láta sér detta í hug að hleypa þessari stærð dragnótabáta upp í fjörur landsins.

Við frekari lestur 5. greinar kemur í ljós að hlutfall þorsks og ýsu má ekki fara yfir 15% af afla kola í sumum tilvikum, undanþága í 30%. Þegar kemur að öðrum svæðum kveður við annan tón því þar eru engar slíkar reglur í gildi, t.d. í Skagafirði hefur hlutfall kola verið langt innan við 10% þrátt fyrir það að forsendur fyrir því að dragnót var leyfð í Skagafirði væri nýting kolastofnsins þar. Þá er einnig tekið fram að á Faxaflóasvæðinu sé óheimilt að nota steinastiklara (rockhoppara). Það er ekki tekið fram að á öðrum veiðisvæðum séu þeir ekki leyfðir, hins vegar tekið fram að óheimilt sé að nota hlera og það nánast það eina sem skilur dragnótina frá hinu hefðbundna botntrolli. Hins vegar er notuð margföld víralengd á dragnót miðað við troll þannig að dragnótabátarnir ná ansi góðu togi áður en dragnótin kemur saman og lokast.

Þetta er í rauninni opið bréf til sjávarútvegsráðherra og svara að vænta ef einhver dreitill er eftir í pennanum.

Steinar Skarphéðinsson vélstjóri

Dragnótin á útleið úr nokkrum fjörðum”


Uppskriftir