Efasemdir um hafrannsóknir víðar en á Íslandi

Á sama tíma og mikil ólga er innan sjávarútvegsins á Íslandi er stödd hér á landi nefnd frá Evrópusambandinu sem er sérstaklega að kynna sér hvernig Íslendingar taka á brottkasti í fiskveiðunum, ásamt því að afla almennra upplýsinga um gang mála á sviði sjávarútvegsins.

Í dag fundaði nefndin með LS og var farið yfir þessi mál. Þeim var greinilega ljóst fyrir fundinn að mikið gengi á og mátti heyra á einhverjum þeirra að þeim kæmi þetta nokkuð spánskt fyrir sjónir, miðað við það orðspor sem víða fer af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu erlendis.

Þeim lék mikill áhugi á að vita afstöðu smábátaeigenda gagnvart þeim aðferðum sem beitt er hérlendis við stofnstærðarmælingar. Var þeim gert grein fyrir atburðum síðustu daga og þeirri gjá sem væri milli veiðimanna og vísindamanna varðandi þorskstofninn.

Nokkrum nefndarmanna kom þetta ekkert á óvart. Víða í Evrópu væri uppi sama staðan. Hinvegar hefðu vísindamenn yfirburði í því að kynna svartar skýrslur í fjölmiðlum, sem síðan væru blásnar upp af umhverfissamtökum. Veiðimenn væru gerðir tortryggilegir og látlaus hræðsluáróður skilaði sér í svartri ímynd veiðimanna – og útvegsins almennt.