Enn á að herða eftirlitið

Í næstu viku mun Sturla Böðvarsson samgönguráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit í sjávarútvegi. Breytingin miðar að því að fyrir árið 2010 verði myndavélar komnar í nánast allan fiskiskipaflotann. Verða þær beintengdar við Veiðieftirlitið eftir því sem kostur er, en að öðrum kosti verður skylt að skila upptökum að veiðiferð lokinni. Ætlunin er að geta fylgst með brottkasti, en eins og kunnugt er liggur íslenska sjómannastéttin stöðugt undir því ámæli að miklum afla sé fleygt fyrir borð.

Orðrétt segir í umsögninni með frumvarpinu: „Sú staða er með öllu óviðunandi, bæði fyrir þá sem starfa á fiskiskipaflotanum sem og þjóðina alla, að ekki fáist niðurstaða í svo alvarlegu máli. Tilraunir með slíkar myndavélar um borð í Baldvini Þorsteinssyni EA 10 á árunum 2001 – 2003 og nú nýverið krókaaflamarksbátnum Guðmundi Einarssyni IS 155 hafa gefið mjög góða raun. Því leggur Samgönguráðuneytið til að þessi leið verði valin.”

Stjórn Landssambands smábátaeigenda (LS) hefur harðlega mótmælt framkomnu frumvarpi. Í ályktun stjórnarinnar um þetta mál er m.a. bent á þá staðreynd að eftirlit í íslenskum sjávarútvegi sé fyrir löngu komið út fyrir öll skynsemismörk og stefni í hreinar persónunjósnir. LS mun í vikunni funda með lögfræðingum um málið.

2570.jpg

Mynd: Guðmundur Einarsson ÍS 155. Svarti depillinn í mastrinu er eftirlitsmyndavélin sem nýverið var gerð tilraun með.