Er fiskur bara fiskur?

Í Fiskifréttum sem út komu í gær var að finna eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason:

„Þorskurinn er
syndandi goðsögn. Í gegn um aldirnar lék hann lykilhlutverk í landnámi
norðursins og vestur um haf. Um aldir gegndi hann konunglegu hlutverki í
viðskiptum og matarmenningu Evrópu, Ameríku og víðar. Þorskurinn var markaður í
þjóðfána, skart og hvers kyns glingur. Hann var óaðskiljanlegur hluti
tilverunnar.

Þorskurinn lék
stórt hlutverk í afkomu íslensku þjóðarinnar og gjörbreytti samfélaginu á
síðustu öld. Það er því að vonum að okkur Íslendingum þyki vænt um þann gula. Fiskinn
sem fylgt hefur okkur í gegnum góðæri og harðindi.  Fiskinn sem við fórum aftur og aftur í stríð fyrir. Þorskurinn
er hluti af þjóðarsálinni.

Nýtt vandamál

Nýverið hefur
skotið upp lítt þekktu vandamáli. Þorskurinn, framvörður íslenskra
útflutningsafurða, hefur átt á brattan að sækja. Sú skýring sem helst er gripið
til er að víðar kreppi að en á Íslandi. Kreppan sé heimslæg .  Vissulega er þetta hluti
skýringarinnar. Reyndar gera einhverjir því skóna að fyrirhugaðar hvalveiðar
séu hluti ástæðunnar. Það er harla langsótt.  Sölutregðan var staðreynd áður en fyrrverandi
sjávarútvegsráðherra gaf út hvalveiðikvótana. Þá fer fjarri að þessi vandræði
eigi bara við um íslenskan þorsk.

Það er full
ástæða fyrir Íslendinga að kafa dýpra í málið.  Í grein Tom Seaman sem hann skrifar á Intrafish vefinn fyrir
stuttu komu fram upplýsingar og vangaveltur sem fyllsta ástæða er til að taka
alvarlega.

Tilapia dýrari en þorskur

Þessa dagana er
Waitrose í Bretlandi að selja kílóið af þorskflökum á 13 evrur (kr.
1877.-/gengi SÍ 09-2-23) en kílóið af tilapia flökum á 17 evrur (kr. 4-4-2.-).  Tilapia flökin eru því um 30% dýrari en
þorskflökin. 

Hvaða töfrafiskur
er tilapia (beitarfiskur)?

Kvikindið er fyrst
og fremst ferskvatnsfiskur, en heldur sig einnig að einhverju marki í hálfsöltu
vatni (ósasvæðum). Fiskinn er mjög auðvelt að rækta. Helstu framleiðslulöndin
eru Taiwan, Kína, Taíland og Indónesía, en fjölmörg önnur lönd, bæði í Afríku
og Mið- og Suður Ameríku hafa tekið til óspilltra málanna. 

Ársframleiðslan
er að nálgast 3 milljónir tonna, sem er næstum fjórfalt það sem veiðist af
þorski í Atlantshafi.  Framan af
voru Bandaríkin helsti kaupandinn, en tilapia hefur nú náð fótfestu á evrópskum
markaði svo um munar.

Hvað veldur?

Hvernig í
ósköpunum má þetta vera? Að villtur Atlantshafsþorskur sé orðinn ódýrari en
ræktaður ferskvatnsfiskur? Getur verið að stanslaus áróður umhverfissamtaka
gegn þorskveiðum séu farin að hafa þessi áhrif? Getur verið að hin goðsagnakennda
ímynd þorsksins sé farið að gefa eftir?     

Mitt í þessum
vangaveltum skrifaði ég tölvubréf til vinar míns sem fyrir stuttu gegndi
yfirmannsstöðu hjá stórum kaupanda í Evrópu. Spurði um hans álit, vitandi að
hann þekkir af langri reynslu hvað er að gerast þar innandyra. 

Í svari hans kann
að leynast hluti af skýringunni: 

Vinnuáætlun
margra smásala á fiski í Evrópu hefur verið og er eftirfarandi:

1.    
Skipta
úr villtum þorski í ufsa (eða aðrar sambærilegar botnfisktegundir)

2.    
Skipt
úr villtum ufsa í nílarkarfa

3.    
Skipt
úr nílarkarfa í tilapia

4.    
Skipt
úr tilapia (að hluta) í pangasius

5.    
Skipta
út tegundum eftir hentugleikum

6.    
Skipt
út tegundum „ofarlega” í fæðukeðjunni í stað tegunda „neðarlega”

7.    
Úr
villtum tegundum í ræktaðar

8.    
Skipta
út tegundum úr köldum sjó yfir í tegundir úr hlýjum

9.    
Unnið
eftir skammtímaáætlunum

En umfram
allt:  Halda sem stöðugustu verði
til neytenda!

Íslenskur fiskur er ekki bara fiskur

Þessi lýsing
endurspeglar hugsanagang sem virðist gegnsýrður af því að „fiskur sé bara
fiskur”. Innkaupastjórum virðist uppálagt að ná í sem ódýrastan fisk sem engu
að síður fari á svipuðu verði til neytenda. Ekki mun kreppan draga úr þessari
þróun. 

Við Íslendingar
vitum að „fiskur er ekki bara fiskur“. 
Fiskur af Íslandsmiðum er hágæða matvara sem á að njóta sannmælis’.  

Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.