Fleiri bætast í hópinn

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá ályktun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þar sem hún lýsir þungum áhyggjum vegna tillagna Hafrannsóknastofnunarinnar um niðurskurð í þorskveiðiheimildum á næsta fiskveiðiári.

Í ályktuninni segir m.a. að það sé mat bæjarstjórnar Snæfellsbæjar að „…mikið vanti uppá vísindalega þekkingu og rannsóknir á þorskstofninum hér við land.’

Þá kveður við sama tón í ályktuninni og komið hefur fram hjá þeim félögum innan sjávarútvegsins sem sent hafa frá sér ályktanir og áskoranir um málið:

„Ljóst er að tillögur Hafrannsóknastofnunar eru í hrópandi ósamræmi við liðna vertíð sem er ein sú besta sem verið hefur við Breiðafjörð í langan tíma, þrátt fyrir að stór hluti fiskveiðiflotans hafi reynt að forðast þorsk eins og hægt var. Stærð fisksins og holdafar var mjög gott og er það í ósamræmi við niðurstöður Hafrannsóknastofnunar.’

Í ályktun bæjarstjórnarinnar er dregið stórlega í efa að togararallið sé fært um að meta stærð fiskistofna.

Sá hópur sem telur að endurskoða þurfi aðferðir Hafrannsóknastofnunarinnar við stofnstærðarmælingar fer vaxandi. Hversu stór hann þarf að verða til að mark verði tekið á honum er hinsvegar óráðin gáta.