Flottrollið – undanþága felld úr gildi

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að fella úr gildi undanþágu sem hann veitti til síldveiða í flottroll innan 12 sjómílna. Samkvæmt reglugerð átti undanþágan að gilda til áramóta.
Það var 2. nóvember sem reglugerðin var gefin út. Snæfell, Útvegsmannafélag Snæfellsness, bæjarstjórn Grundarfjarðar, bæjarráð Stykkishólms og Félag Ungra Sjálfstæðismanna í Snæfellsbæ brugðust strax við og mótmæltu ákvörðun ráðherra.

Í Morgunblaðinu 4. nóvember var haft eftir sjávarútvegsráðherra að síldveiðar í flottroll í Kolluál á grunnslóð væru „leyfðar með skilyrðum um að aðeins yrði veitt á nóttunni og að eftirlitsmenn væru um borð í skipunum.“ „Ráðuneytið hefði lagt mikla áherslu á að um borð væri eftirlitsmaður og nærvera eftirlitsmanns væri alger forsenda þess að hægt væri að heimila þessar veiðar.“ „„Ef upp kemur meðafli, annað en síld, þá verða þessar veiðar snarlega stöðvaðar þarna, svo mikið er víst.““.

Viku síðar er vart við meðafla og hluta svæðisins skyndilokað og önnur skyndilokun gefin út degi síðar, 12. nóvember. Með þeim voru staðfestar áhyggjur Snæfellinga að þessar veiðar ættu ekki rétt á sér á grunnslóð. Meðafli var staðreynd og lífríki Breiðafjarðar var ógnað með veiðunum.

Í Morgunblaðinu í dag er frétt „Heimild til flottrollsveiða á grunnslóð afturkölluð“. Í henni segir m.a.: „Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að afturkalla heimild til flottrollsveiða á síld á grunnslóð úti af Snæfellsnesi.
Ástæðan er of mikill meðafli í afla síldveiðiskipanna. Ákvörðunin tekur til alls svæðisins sem opnað var og tekur gildi um næstu helgi um leið og skyndilokun hluta svæðisins fellur úr gildi.“

Það er mat LS að góð samstaða heimamanna og eftirfylgni hafi borið árangur. Undanþágan nú hefur sýnt að veiðar með flottrolli eiga ekki rétt á sér innan 12 sjómílna.

Afstaða LS er mjög skýr varðandi flottrollið. Á aðalfundi félagsins var samþykkt „að skora á sjávarútvegsráðherra að banna flottroll við veiðar á loðnu og síld þar til að Hafrannsóknastofnun setur fram sannanir um að þær séu ekki skaðlegar vistkerfinu.“.

Hér á heimasíðunni hefur verið fylgst náið með málefninu og eru fréttir af því á eftirfarandi slóðum:

http://www.smabatar.is/frettir/03-11-2006/872.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/06-11-2006/873.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/08-11-2006/875.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/09-11-2006/876.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/10-11-2006/877.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/12-11-2006/878.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/13-11-2006/879.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/13-11-2006/880.shtml

http://www.smabatar.is/frettir/16-11-2006/881.shtml