Stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn 18. febrúar 2010 hafnar alfarið öllum hugmyndum um fyrningarleið í sjávarútvegi. Stjórnin ítrekar fyrri ályktanir aðalfunda, stjórnarfunda og funda svæðisfélaga LS í þessu sambandi.
Verði fyrningarleiðin farin mun hún koma verst við minnstu fyrirtækin, þ.e. einstaklings- og fjölskyldufyrirtæki í smábátaútgerð. Eðli máls samkvæmt er sveigjanleiki þessara fyrirtækja minni en stórfyrirtækja sem jafnvel eru með stóran hluta starfsemi sinnar erlendis.
Mikill niðurskurður aflaheimilda undanfarin ár hefur mjög þrengt að rekstri smábátaútgerðarinnar. Þar ekki á bætandi og skorar stjórn LS því á stjórnvöld að falla nú þegar frá hugmyndum um fyrningarleið og gera sitt ítrasta til að finna aðrar leiðir til sátta um málefni sjávarútvegsins. Stjórn LS lýsir fullum vilja til að koma að slíku starfi.
Stjórn LS leggur til að „skötuselsákvæðið“ í frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða verði dregið til baka. Þess í stað teljist skötuselur sem meðafli við grásleppuveiðar ekki til króka- né aflamarks. Ráðherra setji um þetta sérstakar reglur.
Stjórn LS fagnar framkomnu frumvarpi um strandveiðar, en mótmælir að sama skapi að aflinn í strandveiðunum skuli dreginn af þeim sem fyrir eru í greininni.
Þá skorar stjórn LS á stjórnvöld að auka nú þegar verulega við veiðiheimildir í þorski, ýsu og öðrum helstu nytjastofnum bolfiska. Veiðimenn, hringinn í kring um landið verða varir við miklu meiri fiskgengd en skýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar gefa til kynna.
Fyrningarleiðin og fjölskyldufyrirtæki á Snæfellsnesi