Eftirfarandi grein eftir Orra Vigfússon birtirst í Morgunblaðinu 16. febrúar sl.
„Fréttir um að íslenskur fiskur í búðum og stórmörkuðum standist ekki heilbrigðiskröfur eru óviðunandi. Við verðum að taka á okkur rögg og tryggja sjálfbærni og hreinleika íslenskra sjávarafurða.
Sjálfsvirðing og efnahagsleg velferð okkar mun áfram byggjast á að vel takist til um gæðakröfur jafnt og hóflega nýtingu og eðlilegan viðgang fiskistofna. Á hverju ári spyrja íslenskir og erlendir neytendur fleiri og fleiri gagnrýnna spurninga um þessar afurðir. Ef við ætlum að hafa aðgang að erlendum mörkuðum, þurfum við að sætta okkur við forvitni af þessu tagi jafnvel þótt hluti af henni grundvallist af tilfinningabundnum rökum frekar en vísindalegum. Neytendur eiga skilið að fá skýr og greið svör ef við eigum að njóta trausts þeirra. Þetta gæti jafnvel orðið styrkleiki okkar á tímum erfðabreyttra matvæla. Því skiptir höfuðmáli að vera á undan þróuninni; að vera í sókn í stað þess að vera í vörn. Umhverfismerking íslensks sjávarfangs er löngu tímabær.
Flestar spurningar um sjávarafurðir eru tengdar ofveiðum, svokölluðum iðnaðarveiðum, kröfum um vistvæn veiðarfæri, umgengni við búsvæði á hafsbotni, gæðastjórnun og fleiri þáttum eins og t.d. hvalveiðum. Tilfinningarök eru jafgild í hugum margra og vísindarök þegar þessi mál eru til umræðu.
Í kveri sem ég gaf út í maí 1997 og kallaði „Nýtni á Norðurhöfum“ hvatti ég til þess að tekin yrði upp fagleg gæðavottun á sjávarafurðum sem fylgdi ströngum skilyrðum hvað varðar veiðar, veiðarfæri, meðferð, vinnslu og markaðssetningu. Ritstjórar Mbl. og DV tóku hraustlega undir þessar hugmyndir en ekki tókst að hrinda þessu verkefni í framkvæmd. Reglur af þessu tagi eru í eðli sínu vondar fyrir skussana, sem verða þá að taka sig á, en góðar og verðlaunar þá sem gera vel.
Ég er enn sannfærður um að svona verkefni myndi skila miklu, ekki bara forystu í stefnumótun umhverfismála og nýtingu sjávarfangs í sátt við móður náttúru heldur og arðvænlegum viðskiptatækifærum. Þannig selja Skotar viskíið sitt og Frakkar kampavínið á margföldu verði. Slow Food-merkið er gott dæmi og það eru mýmörg önnur tækifæri víða um heim.
Landssamband smábátaeigenda er að undirbúa gæða- og umhverfismerkingu á fiski í samvinnu við heildsala og smásala hérlendis og erlendis. Ber að fagna framtaki þeirra og óska þeim velfarnaðar.“
Höfundur er formaður NASF
verndarsjóðs villtra laxastofna