Grásleppuveiðar – minni veiði en í fyrra – verðlækkun óþörf

Það sem af er vertíðinni er grásleppuveiði minni en á sama tíma í fyrra. Hér og í Grænlandi er um þriðjungsminnkun og í Noregi er veiði fjórðungi minni.
Veiðar á Nýfundnalandi hefjast í næstu viku og verður fréttum af þeim komið á framfæri um leið og þær berast. Þó er ljóst að þar verður staðið á bremsunni hvað varðar framboð.
Allt stefnir því í að heildarframboð grásleppuhrogna minnki nú annað árið í röð.

Miklar verðsveiflur eru óæskilegar og skaða bæði framleiðendur grásleppukavíars og veiðimenn. LS hefur lagt sitt að mörkum með að skapa stöðugleika í framboði og verði.
Þannig hefur félagið stuðlað að því að framboð hrogna verði ekki umfram eftirspurn með því að leggja til styttingu á veiðitíma og hvetja aðrar veiðiþjóðir til þess sama. Á vertíðinni nú virðist það ætla að bera árangur.
Einnig hefur LS hvatt félagsmenn til að hefja ekki veiðar fyrr en samið hefur verið um verð og magn. Því miður hafa ekki allir veiðimenn fylgt þeim tilmælum og hafið veiðar án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir sölu hrognanna. Þær tunnur hafa svo verið sendar til framleiðenda grásleppukavíars án þess að verð hafi verið ákveðið. Í framhaldi af því hefur orðið til óraunhæft verð sem nú þegar er farið að valda óróa á markaðinum.
Hér er enn á ný vakin athygli á samþykkt grásleppunefndar LS frá 7. febrúar að lágmarksverð grásleppuhrogna eigi að vera 700 evrur. Jafnframt harmar félagið að gengisþróun sl. vikna skuli ekki skila sér til veiðimanna. Það er því verðugt íhugunarefni fyrir félagsmenn sem stunda grásleppuveiðar að draga enn meir úr veiðum þar sem hrogn á lágu verði valda óstöðugleika á hinum viðkvæma markaði.