Eins og greint hefur verið frá hér á vefnum var upphaf grásleppuvertíðarinnar á Nýfundnalandi sú lélegasta sem um getur þar í landi. Gríðarlegir sjávarkular og mikill hafís fyrir austurströndinni urðu þess valdandi að mönnum var nánast ókleift að stunda veiðarnar.
Fyrir réttri viku síðan voru komnar á land á Nýfundnalandi innan við 400 tunnur af grásleppuhrognum. Að öllu eðlilegu væru komnar nokkur þúsund tunnur á land á þessum tíma.
Þegar er ljóst að heildarveiðin á grásleppuhrognum á árinu 2007 verður langt undir því sem hún hefur verið undanfarin ár. Í Noregi er sama og enginn áhugi á veiðunum og á Íslandi hafa ekki færri stundað veiðarnar í áratugi. Það furðulega er að enn mjakast verð lítt uppávið.
Veiðimenn við N-A Atlantshaf tóku höndum saman fyrir nokkrum árum um að takmarka framboðið á grásleppuhrognum, í þeirri von að hin lágu verð myndu heyra sögunni til. Vissulega hafa verðin mjakast í rétta átt, en mikið vantar uppá að þau séu ásættanleg.