Grásleppuvertíðin fer hægt af stað á Siglufirði

„Við vorum að koma frá því að draga nú áðan. Veiðin var afspyrnuléleg, 10 – 12 grásleppur í trossu, en á sama tíma í fyrra var ekki óalgengt að fá 250 – 300“, sagði Hilmar Zophaniasson grásleppuveiðimaður á Siglufirði.

„Flestir hér lögðu 10. mars eins og í fyrra. Veiðin við fyrstu umvitjun var aðeins fimmtungur af því sem fékkst þá. Það eru því gríðarleg vonbrigði að ekki skuli frekar glæðast hjá okkur, en þetta var hrein hörmung áðan, auk þess sem kuldinn er mikill sem fylgir norðanáttinni.

Í dag eru 10 bátar búnir að leggja og eins og undanfarin ár seljum við allir til Domstein í Svíþjóð og höfum tryggingu fyrir sölu á öllu því sem við veiðum. Verðið hefur enn ekki verið ákveðið en tryggt er að það verður hærra en heyrst hefur að í boði sé hjá íslensku verksmiðjunum“, sagði Hilmar.