Heimsókn frá Nýja-Sjálandi

Fyrr í mánuðinum heimsótti trillukarlinn Bob Buckley frá Nýja-Sjálandi Landssamband smábátaeigenda. Að auki gerði hann sér lítið fyrir og ók hringveginn á sléttri viku, með viðkomu á Vestfjörðum og ótal útúrdúrum frá þjóðvegi 1. Bob er kominn við aldur, en engin leið var að fiska uppúr honum hvað hann væri gamall.

Eins og kunnugt er var Nýja-Sjáland fyrst ríkja til að lögfesta kvótakerfi í fiskveiðum eins og Íslendingar búa við. Það var því stórfróðlegt að hlusta á þann gamla, hann talaði sjómannamál, en ekki krúsidúllulýsingar skriffinna.

Hann sagði deilum um kerfið að mestu lokið á Nýja-Sjálandi – en samt væru göt á kerfinu sem hvergi sér fyrir endan á. Þessi göt eru fyrst og fremst tengd sögulegum réttindum frumbyggja til að nýta aðlæg mið – t.d. hvað varðar humar og krabba. Atvinnuveiðimenn eru bundnir kvótum hvað varðar þessar tegundir, en á sama tíma geta frumbyggjar stundað umtalsverðar veiðar án þess að neitt sé við því að gera. Bann við fénýtingu afla (sama og hér) er léttvægt fundið.

Eitt af því sem kom fram í spjalli við Bob – og var sérlega áhugavert, er hvaða viðurlögum er beitt, séu menn staðnir að brotum á fiskveiðilöggjöfinni. Þar eru engin vettlingatök á ferðinni. Séu menn t.d. staðnir að því að veiða og gefa aflann ekki upp og landa honum framhjá vigt, geta verið eftirfarandi:

1. Viðkomandi missir bát ásamt veiðarfærum og fylgihlutum
2. Viðkomandi missir kvótann sinn
3. Viðkomandi fær himinháa sekt

Aðspurður sagði hann að brot gegn fiskveiðilögunum á Nýja-Sjálandi væru fátíð. Þegar honum var greint frá viðurlögum við brotum á íslensku fiskveiðilöggjöfinni, hló hann svo hressilega að í ljós kom að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því að missa endajaxlana á næstunni.

Fróðleiksmolar frá þessum eldhressa Ný-Sjálenska trillukarli munu birtast hér á síðunni á næstu vikum. T.d. um samskipti veiðimanna þar í landi við vísindamenn, en þar ríkir mikil og góð samvinna. Honum var verulega brugðið við að heyra að hérlendis væri ríkjandi trúnaðarbrestur milli þessara aðila.