Hlustvörslu hætt á rás 9 á metrabylgju frá og með 1. apríl

Á heimasíðu Landhelgisgæslunnar, http://lhg.is er greint frá að: „Stjórn vaktstöðvar siglinga, í samráði við Siglingastofnun og Siglingaráð, hefur tekið ákvörðun um að hætta hlustvörslu á rás 9 á metrabylgju (VHF).

Rás 9 hefur til nokkura ára verið notuð fyrir tilkynningaskyldu skipa og báta á Faxaflóa, Breiðafirði og sunnanverðum Vestfjörðum. Skip og bátar í öðrum landshlutum hafa notað svokallaðar vinnurásir t.d. 25 og 26 fyrir sambærilegar tilkynningar. Nú hefur því verið ákveðið að notast eingöngu við vinnurásir til þessara tilkynninga. Eins og fram kemur í Tilkynningu til sjófarenda nr. 2006-2-1 verður hlustvörslu formlega hætt frá og með 1. apríl. Þó mun Vaktstöð siglinga hafa þessa rás opna um nokkurra vikna skeið fram yfir þann tíma til að vísa mönnum á aðrar rásir.

Bent er á að fjarskiptabúnaður fyrir vinnurás 26 er á fjallinu Þorbirni norður af Grindavík og hentar því vel fyrir Reykjanes og Faxaflóasvæðið. Fjarskiptabúnaður fyrir rás 23 er á Sandi og hentar því vel fyrir t.d. Ólafsvík, Rif og utanverðan Breiðafjörð. Fjarskiptabúnaður fyrir rás 26 er einnig í Hænuvík og hentar vel fyrir t.d. Patreksfjörð, Tálknafjörð og fleiri staði á Vestfjörðum. Ef ekki næst samband á þessum rásum þá er þéttara net fyrir rás 16 og ætti því að vera auðvelt að ná sambandi til tilkynninga á þeirri rás.

Með tilkomu sjálfvirkra tilkynningarkerfa hefur mjög dregið úr notkun á rás 9 en töluverður sparnaður mun hljótast af því að hætta hlustvörslu á þeirri rás. Sá sparnaður mun nýtast við uppbyggingu á öðrum þáttum í öryggismálum sjófarenda sem Vaktstöð siglinga ber ábyrgð á.

Landhelgisgæsla Íslands / Vaktstöð siglinga“