Hrefnuveiðar og Alþjóðlegi dýraverndunarsjóðurinn (IFAW)

Á Vísir.is birtist í dag athyglisverð frétt, undir fyrirsögninni „Veiðarnar þola ekki dagsljósið’. Þar er greint frá því að kvikmyndatökulið frá IFAW – Alþjóða dýraverndunarsjóðnum – hafi hundelt hrefnuveiðibát í dag út af Suð-Vesturhorninu. Veiðimennirnir hafi hinsvegar harðneitað öllu samstarfi. Ályktunin sem forsvarsmaður hópsins dregur af þessu er að veiðarnar þoli ekki dagsljósið.

Á yfirstandandi ári er leyft að veiða 40 hrefnur við Íslandsstrendur, eða innan við 0,1% af stofninum við Ísland.

Í Bandaríkjunum er yfir 30 milljónum nautgripa slátrað árlega og lýsingar þeirra sem hafa fylgst með ferlinu í þarlendum sláturhúsum eru ekki fyrir viðkvæma.

Sé farið á heimasíðu IFAW og slegið inn leitarorðinu „slaughterhouse’ er eitthvað lítið að finna.

Hvernig á því stendur að dráp á örfáum dýrum útí hinni villtu náttúru er mun meira hjartans mál þessa sjóðs væri fróðlegt að fá útskýringar á.
Dráp á dýrum er aldrei „fallegt’ og íslenska hrefnuveiðimenn grunar eflaust að myndum af þeirra veiðiskap verði stillt upp sem hræðilegum morðum á saklausum dýrum.

Væri ekki nær fyrir IFAW að taka til heima hjá sér, áður en þeir fara að svartmála Íslendinga vegna hrefnuveiða?

Lesendum er bent á að kynna sér bókina „Fast Food Nation’. Þar eru lýsingar einstaklings sem fylgdist með ferlinu í einu af nautgripasláturhúsunum í Bandaríkjunum. Þær lýsingar eru andstyggilegri en nokkurn grunar fyrirfram.