Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 22. september sl.:
Undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þar hefur verið lögð áhersla á að nýta beri hvalinn eins og önnur sjávardýr og allt gert til að sannfæra ráðið um að heimila hvalveiðar. Lagðar hafa verið fram og kynntar skýrslur sem sýna að hvalastofnar eru í sókn. Þar er byggt á talningu vísindamanna Hafrannsóknastofnunar. Þá hafa margvísleg óhrekjanleg rök verið lögð fyrir ráðið í því skyni að fá það til að samþykkja kröfur okkar um veiðar.
Í ágúst 2003 hófust vísindaveiðar á hrefnu og er því vertíðin nú sú fjórða í röðinni. Alls er búið að veiða 161 dýr af þeim 200 sem rannsóknaáætlunin gerir ráð fyrir: 36 hrefnur voru veiddar 2003, 25 árið 2004, 39 árið 2005 og á vertíðinni sem lauk í ágúst sl. voru veiddar 60 hrefnur.
Kerfisbundin mótmæli bárust til stjórnvalda 2004 í kjölfar veiðanna og var þeim öllum svarað af utanríkisráðuneytinu þar sem bréfritarar voru upplýstir um sjónarmið okkar. Undanfarið hafa mótmæli við vísindaveiðunum vart verið mælanleg og því greinilegt að góð heimavinna hefur skilað sér.
Vilji þjóðarinnar skýr
Stjórnvöld hafa varið miklum fjármunum til að vinna þetta mál með sem skynsamlegustum og árangursríkustum hætti. Það sást glöggt á niðurstöðum síðasta ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins sem haldinn var í júní sl. Þar var samþykkt að nýta bæri hvalastofna með sjálfbærum hætti á grunni vísindaráðgjafar og að bann við hvalveiðum í atvinnuskyni væri óþarft.
Í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins af fundinum kom fram að „þetta væri í fyrsta sinn í fjölda ára sem meirihluti Alþjóðahvalveiðiráðsins samþykkir ályktun til stuðnings sjálfbærum hvalveiðum í atvinnuskyni“. Andstæðingar hvalveiða eru því orðnir í minnihluta í ráðinu, eins og segir í fréttatilkynningunni.
Niðurstaða skoðanakönnunar sem LÍÚ gekkst fyrir um afstöðu Íslendinga til hvalveiða sýnir glöggt að baklandið hér heima er tryggt, 73% landsmanna eru fylgjandi hvalveiðum í atvinnuskyni en aðeins 11% eru því andvíg. Vilji þjóðarinnar er því skýr varðandi þetta málefni.
Hefur ekki áhrif á ímynd Íslands
Athyglisvert er einnig að skoða skýrslu um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands, sem samgönguráðherra sendi frá sér sem svar við fyrirspurn Marðar Árnasonar og fleiri alþingismanna. Þar kemur m.a. fram að það að hefja vísindaveiðar á hrefnu árið 2003 hafði ekki áhrif á almenna ímynd Íslands á helstu markaðssvæðum ferðaþjónustunnar. Einnig segja niðurstöður rannsóknar, sem Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerðu í júlí 2002 meðal þátttakenda í hvalaskoðunarferðum, svipaða sögu. Þar kom fram að 75% aðspurðra sögðu það engu máli skipta hvort skotinn væri hér hvalur eða ekki.
Ljóst er að mikið er í húfi með að hefja hvalveiðar. Niðurstöður talninga sýna að hér við land eru um 100 þúsund dýr, þar af 44 þúsund hrefnur. Og eitthvað þarf hjörðin að éta, þar eru nefnd 6 milljónir tonna eða tæplega fimmfalt það magn sem íslenski flotinn var að veiða á nýliðnu fiskveiðiári. Talið er að þriðjungur fæðunnar sé fiskur eða 2 milljónir tonna, en hrefnan er stórtækust í fisknum með um milljón tonn. Rannsóknir sýna að þar geti þorskur verið um 3% eða kringum 60 þús. tonn sem er helmingi meira en krókaaflamarksbátar fiskuðu á nýliðnu fiskveiðiári.
Vanda þarf síðustu skrefin
Af því sem hér hefur verið ritað má ljóst vera að lagt var upp í langferð þar sem margar hindranir voru á veginum. Með þolinmæði hefur tekist að ryðja þeim úr vegi utan þeirrar síðustu sem er að taka ákvörðun um veiðarnar. Það er skoðun mín að nú sé farvegur til að stíga það skref. Ójafnvægi í lífríki sjávar eykst þjóðinni í óhag. Þá er það skilningur minn að við séum í raun að brjóta alþjóðasamþykktir með því að nýta ekki þær tegundir sem sjálfbærar eru.
Augljóst er að vanda þarf síðustu skrefin áður en ákvörðun er tekin. Það hlýtur þó að auðvelda ákvarðanatökuna þegar sýnt hefur verið fram á hver vilji þjóðarinnar er. Afstaða allra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi er skýr; þau skora á stjórnvöld að hefja veiðar nú þegar. Einnig liggur fyrir afstaða þeirra sem njóta þess að horfa á hvalinn. Og síðast en ekki síst er það lífríki sjávar sem beinlínis hrópar á að hægt verði á því ójafnvægi sem skapast þegar stórtækasta tegund lífríkisins er látin óáreitt.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.