„Kannski græddi það miklu fleiri milljarða en það tapaði“

Athygli hefur vakið „Tveggja manna tal á Höfn í Hornafirði“ sem birtist í BRIMFAXA félagsblaði LS sem út kom í byrjun júní sl. Þar rabbar Unnsteinn Guðmundsson við Pál Dagbjartsson náttúruspekúlant, sem var skipstjóri á stórum bátum í áratugi áður en hann gerðist trillukarl.

Í samtalinu koma þeir félagar víða við þar sem umræðuefnið tengist lífríki sjávar.
Eitt af því eru skoðanir Páls á því hvort hann telji of mikið veitt af loðnu. Gefum Páli orðið:

„Ég veit að í eðli sínu eru hlutirnir svolítið erfiðir. Ég er kannski ekki endilega sammála því að ekkert megi veiða af loðnu, en við verðum að gæta okkar mjög alvarlega á því að svelta ekki lífríkið með því að veiða eins og hefur verið gert, stanslaust. Stofninn hefur brugðist mjög fljótlega við þessum ágangi – það gera allir stofnar, sjáðu – en þá fóru þeir að leyfa þessar vörpuveiðar. Þá komst loðnan ekki undan og hún fékk ekkert tækifæri til að komast hér inn til þess að hrygna, hún var bara tekin hér austur af landinu og hvar sem til hennar náðist. Um leið og þú ert farinn að fara í óþroskuð kvikindi af hvaða tegund sem er, þá ertu náttúrlega að flýta fyrir eyðingu hennar, sama hvort það er loðna, þorskur eða hvað annað sem er.“

Síðar í viðtalinu koma þeir félagar Páll og Unnsteinn aftur inn á loðnuna.

„Við getum ekki haldið áfram að veiða allt sem við náum í neðan af keðjunni. Það bara gengur ekki. Við verðum allavega að gera það upp við okkur hvað borgar sig fyrir okkur að veiða. Græðum við á því að selja loðnuna í bræðslu? Ég tel að með aðgát getum við veitt loðnu handa þeim sem stunda frystingu og annað svipað, með hóflegum hætti. En að halda að þjóðfélagið sé að verða af fleiri, fleiri milljörðum af því að þeir gátu ekki hreinsað upp alla loðnuna sem kom upp að ströndinni, það er misskilningur. Það er bara hreinn misskilningur eins og fréttamennskan er að láta ganga yfir okkur, já. Þegar kom bræla í fimm daga, þá tapaði þjóðfélagið svo og svo mörgum milljörðum, en kannski græddi það miklu fleiri milljarða en það tapaði. Lífríkið dafnar ekki nema það hafi að éta, sama hvað hver og einn segir“, segir Páll Dagbjartsson náttúruspekúlant.