Stjórn Kletts – félag smábátaeigenda frá Ólafsfirði til og með Tjörnes – fundaði í gær 5. mars. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar:
Þorskkvóti
Fundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir auknum rannsóknum á mikilli þorskgengd á miðunum allt í kringum landið. Magnið er í engu samræmi við mat Hafrannsóknastofnunar og ráðgjöf hennar.
Mælingar nú eru mjög mikilvægar þar sem ekki er ólíklegt að þær leiði til endurmats á hámarkskvóta í þorski líkt og í loðnunni og afstýri þannig milljarða tapi fyrir þjóðarbúið.
Gríðarlega mikil þorskgengd styrkir áðurframkomna skoðun sjómanna að þorskkvóti yfirstandandi fiskveiðiárs sé langt undir því magni sem óhætt sé að veiða.
Björgunarþyrla
Fundurinn skorar á dómsmálaráðherra að staðsetja hluta þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar á Akureyri.
Loðnuveiðar
Fundurinn styður varfærnislegar ákvarðanir sjávarútvegsráðherra við veiðibann á loðnu og ákvörðun loðnukvóta, jafnframt ítrekar fundurinn fyrri ályktanir um að loðna skuli fyrst og fremst vera veidd til manneldis og einungis í nót.