LS fundar með forsætisráðherra

Í dag áttu forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda fund með forsætisráðherra Geir H. Haarde vegna boðaðrar kvótaskerðingar í þorski.

Á fundinum lagði LS áherslu á að upplýsa ráðherra um hin gríðarlegu áhrif sem niðurskurður veiðiheimilda hefur á smábátaútgerðina. Áætlað er að aflaverðmæti smábáta minnki um 4 milljarða vegna ákvörðunarinnar. Þar vegur þorskurinn þyngst um 2,8 milljarðar, ýsa um 1,1 og steinbítur um 25 milljónir.

Á sl. fiskveiðiári var heildarafli smábáta 6-6-80 tonn. Þorskur 54% aflans, ýsa 29%, steinbítur 8%, ufsi 4,5% og aðrar tegundir 4,5%. Af þessari aflasamsetningu er ljóst að ákvörðun stjórnvalda að skerða veiðiheimildir í þorski um þriðjung kemur mjörg hart niður á félagsmönnum í LS.

LS kynnti forsætisráðherra gagnrýni sína á tillögur Hafrannsóknastofnunar og fór yfir forsendur félagsins um að næstu þrjú árin skuli árleg veiði af þorski vera 220 þús. tonn.
Þá lýsti LS vonbrigðum með að ekki skuli hafa verið tekið tillit til sjónarmiða sjómanna á ástandi þorskstofnsins, líklega væri það einsdæmi í vísindaheiminum. Hátt verð á varanlegum þorskkvóta á fiskveiðiárinu sýndi það betur en margt annað hversu sannfærðir útgerðarmenn væru um ástandið á miðunum.
Á fundinum var og rædd staðhæfing LS um mæliskekkjur hjá Hafrannsóknastofnun í meðalþyngd elstu árganganna.

Forsætisráðherra sagði engar líkur á að ákvörðuninni yrði breytt. Einstök fyrirtæki væru nú þegar byrjuð að skipuleggja sig m.t.t. hinnar breyttu stöðu. Hann sagði Byggðastofnun vera ætlað stórt hlutverk í að aðstoða einstaka útgerðir, unnið væri að útfærslu um það atriði.

Þar er mat LS að fundurinn hafi verið gagnlegur og tekist hafi að koma sjónarmiðum smábátaeigenda á framfæri og til umhugsunar hjá forsætisráðherra.