LS hefur sent sjávarútvegsráðherra bréf þar sem félagið hvetur hann til að auka þorskkvótann um 22 þús. tonn á komandi fiskveiðiári. Næstu 3 árin verði kvótinn 220 þús. tonn. Tillagan er samhljóða því sem LS mælti með fyrir ári síðan og byggist á fjölmörgum þáttum sem því miður hafa ekki til þessa fengið nægjanlegt vægi stjórnvalda. Þar efst á blaði er tilfinning sjómanna, þeirra sem eru á vettvangnum allan ársins hring. Hana byggja þeir á áratuga reynslu, skoðunum dagbóka þar sem hliðstæðna er leitað, ár- og veðurfari, hitastigi, magainnihaldi, holdafari þorsksins og síðast en ekki síst aflabrögðum.
Í tillögum LS til ráðherra er mælt með að ýsukvótinn verði 100 þús. tonn, steinbítur 13 þús. og ufsi 80 þús.
Þá er ráðherra hvattur til að auka línuívilnun, þannig að hún nái til allra dagróðrabáta og löngu og keilu verði bætt við þær tegundir sem ívilnunin gildir um.
Af öðru má nefna það álit LS að banna beina sókn í steinbít með togveiðarfærum á hrygningartíma hans.
Óheimilt verði að nota flottroll við veiðar á síld og loðnu og aukin áhersla verði lögð á mikilvægi loðnu sem fæðu fyrir þorsk.
LS fer fram á að skötuselur sem meðafli verði ekki talinn til kvóta.
Þá fer LS fram á að settar verði reglur um hámark á lúðu sem meðafla við dragnótaveiðar.