Mælingar Hafrannsóknastofnunar á þorskstofninum – veilur í málflutningi fiskfræðinga

Innan skamms mun Hafrannsóknastofnun kynna árlega skýrslu um nytjastofna á Íslandsmiðum. Á sjómannadeginum mátti heyra á ræðumönnum eftirvæntingu eftir ráðgjöfinni.
Til upprifjunar er hér birt grein eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 10. apríl sl.

„Ekkert lát er á gríðarlegum aflabrögðum í þorski. Fréttir af miðunum nú árið 2008 eru áþekkar þeim sem verið hafa undanfarin ár. Þegar flett er upp í tveggja ára gömlum viðtölum má sjá hástemmdar lýsingar frá sjómönnum af miklu magni þorsks. Fiskifræðingar svöruðu þeim og gáfu þá skýringu að þetta kæmi þeim ekki á óvart. „Árgangarnir 0-20-1997 voru þokkalegir að styrkleika, hafa verið áberandi í veiðinni. Þar af leiðandi er meira af stærri fiski á ferðinni en á undanförnum árum. “(Björn Ævarr í Fiskifréttum 3. mars 2006)

Sjómenn höfðu rétt fyrir sér

Það kom svo á daginn að sjómenn höfðu rétt fyrir sér. Árgangarnir sem sérfræðingurinn vitnaði til voru fimmtungi eða heilum 20% stærri en Hafró hafði kunngert. Það kom fram í vorrallinu 2007: „vísitala 7-10 ára fisks (7-19-2000) 20% hærri en í rallinu 2006“ og ekki nóg með það, hún var „100% hærri en hún var á tímabilinu 3-20-2001.“ Þetta og svo fjölmargt annað sýnir glöggt að mælingar vísindamanna Hafrannsóknastofnunar eru ekki óskeikular.
Sjómenn voru hins vegar ekki undrandi. Niðurstaðan var í samræmi við þeirra upplifun. Þeim kæmi auk þess ekki á óvart þótt skekkjan sem hér var nefnd yrði enn hærri þegar niðurstaða yfirstandandi togararalls verður kunngerð.
Ábyrgð stjórnvalda að taka ekki tillit til sjónarmiða sjómanna þegar ákvörðun um heildarafla var tekin í júlí 2007 er gríðarleg. Allt tal um að náttúran eigi að njóta vafans og að byggt sé á bestu fáanlegum upplýsingum við ákvörðun eru léttvægar klisjur í þessu sambandi og fría stjórnvöld ekki frá röngum ákvörðunum sem valdið hafa ómældum erfiðleikum.

,,Bestu fáanlegu upplýsingar”

Víkjum að bestu fáanlegu upplýsingunum. Eins og fyrr er getið er skekkja við mat á 4 árgöngum 100% á 4 – 6 ára tímabili. Einnig er skýrt tekið fram í Fjölriti nr. 129, „Ágrip af skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um nytjastofna sjávar 7-20-2006 og aflahorfur fiskveiðiárið 8-20-2007“ í kaflanum um þorskinn:

„að teknu tilliti til óvissu í stofnmati eru hins vegar verulegar líkur á að stofninn fari undir sögulegt lágmark ef áfram verður veitt samkvæmt núgildandi aflareglu.“

Það er að segja orðin „óvissa“, „verulegar líkur“ eru notuð og ættu því að gefa stjórnvöldum næga ástæðu til að hlusta á sjómenn.
Sé eingöngu litið til þessara tveggja þátta eru þeir nægjanlegir til að hrekja þá fullyrðingu að byggt sé á „bestu fáanlegu upplýsingum“. Það var og er skylda stjórnvalda að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem eru á vettvanginum allan ársins hring. Ekki síst þegar afleiðingar ákvörðunarinnar snerta lífsafkomu þúsunda manna, samdrátt í aflaverðmæti upp á 15 – 18 milljarða, atvinna hundruða í hættu og fyrirsjáanlegt tap á mörkuðum sem er ómetanlegt.
Margsinnis var bent á veilur í málflutningi fiskifræðinganna og villandi framsetningu.
Nær væri að tala um að hrygningarstofninn hefði verið vaxandi allt frá 1983 og í sögulegu hámarki á þessu 25 ára tímabili árið 2005, heldur en að segja hann vera undir sögulegu lágmarki þegar aðeins fyrstu 10 ár þeirrar hálfrar aldar sögu hefðu farið yfir meðaltalið af 2 árum undanskildum.
Bent var á sams konar afvegaleiðandi málflutning þegar rauð ljós voru kveikt við kynningu á nýliðun. Aðeins eitt ár (2000) á síðustu 20 árum hafði farið yfir 50 ára langtímameðaltalið. Ekki var vakin athygli á að sett var fram með grafískum hætti þróun nýliðunar síðustu 20 árin.
Bent var á að togararallið næði ekki til grunnslóðarinnar, það tæki ekki mið af þeim gríðarlegum umhverfisbreytum sem orðið hefðu á síðustu árum.

Afstaða félagsmanna LS

Félagar í Landssambandi smábátaeigenda eru nánast á einu máli um að stjórnvöld hafi gengið alltof langt í niðurskurði veiðiheimilda í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári. Það tímabil sem liðið er af fiskveiðiárinu gefur ekki tilefni til að víkja frá þeirri skoðun. Aflabrögð með eindæmum góð. Þorskurinn í góðum holdum. Góð dreifing í stærðarsamsetningu. Ekki merkjanlegt að árgangar 2001, 2002 og 2003 séu lélegir. Allt útlit fyrir að vísindamenn Hafrannsóknastofnunar vanmeti þessa árganga. Því er engin ástæða fyrir sjávarútvegsráðherra að bíða til næsta fiskveiðiárs með að auka veiðiheimildir þorski.“

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.