Það er í frásögur færandi að tveir sjómenn á áttræðisaldri réru til fiskjar frá Tálknafirði í gær. Þeir voru með sitt hvora stöngina meðferðis og rennt var fyrir þeim gula. Fljótlega var búið að fiska í matinn og þá ætlunin að halda heim. En eins og svo oft áður var erfitt að slíta sig frá veiðinni, en þá brá svo við að þeir veiddu sinn hvorn makrílinn. Mikil undrun varð um borð, spikfeitur makríll veiddur rétt við landið.
Fréttin flaug eins og eldur um þorpið og var leitað til eldri manna á staðnum. Öllum bar saman um að óþekkt væri að markríll hefði áður veiðst í Tálknafirði.
Nú er bara að vona að þessi nytjafiskur geri sem víðast vart við sig því tekjumöguleikar eru miklir af honum þegar rétt er á málum haldið.