„Málpípu LÍÚ svarað“

Í Morgunblaðinu laugardaginn 8. apríl gerir Gunnlaugur Ármann Finnbogason athugasemdir við Bryggjuspjall Hjartar Gíslasonar frá 29. mars.

„Hinn 29. mars birtist pistill Hjartar Gíslasonar, Bryggjuspjall í Verinu. Þar fjallaði hann um hina nýju reglugerð um slægingu og slægingarstuðla sem gefin var út af sjávarútvegsráðherra nýlega. Vildi hann að slægingarstuðlar yrðu algerlega afnumdir til að auka nákvæmni í vigtun afla. Þessu er ég algjörlega ósammála. Afnám slægingarstuðla mundi alls ekki auka nákvæmni, heldur þvert á móti myndi þarna myndast aðstæður fyrir ýmiss konar svindl þegar menn senda inn endurvigtunarnótur eftir að fiskurinn er kominn upp í fiskvinnsluhús og allt eftirlit yrði erfiðara. Einfaldast og best er að lokavigtun fari fram á hafnarvoginni.

Þetta kemur sér illa fyrir þá sem landa á Fiskmarkað, sem þurfa þá að eltast við endurvigtunarnótur í hinum og þessum fiskvinnsluhúsum sem keypt hafa aflann.

Það hentar ekki öllum vinnslum að fá fiskinn slægðan, t.d. vilja þeir sem flytja út ferska ýsu í flugi fá ýsuna óslægða því þá er betra að hreistra hana. Margir harðfiskverkendur kaupa óslægðan fisk og flaka hann óslægðan strax daginn eftir, einnig eru saltfiskframleiðendur sem handfletja fiskinn strax nýjan og óslægðan. Enda hefur það sýnt sig þegar landað er hvorutveggja slægðum og óslægðum fiski, að kaupendur greiða nánast ekkert meira fyrir slægða fiskinn þrátt fyrir að þá sleppi þeir við innyflakaup og kostnað vegna slægingar. Sé ég því enga ástæðu til að þvinga menn til að slægja þega kaupendur vilja það ekki.

Það væri mun betra að Hjörtur Gíslason kynnti sér málin víðar en hjá LÍÚ (Landssambandi íslenskra útvegsmanna) áður en hann fer að predika það eina rétta, eins og hann kallar það.

Slægingarprósentan

En svo ég snúi mér að nýju reglugerðinni, þá snýst hún um það að þeir sem vilja geti vigtað eftir slægingu, sem er allt í lagi fyrir þá sem það vilja. En hitt atriðið er ekki í lagi, það er að slægingarprósentunni er breytt úr 16% í 12%.

Í fyrsta lagi hafa þeir sem barist hafa fyrir því að vigta eftir slægingu alltaf talað um að 16% slóghlutfall sé allt of lágt, en svo þegar þeir fá að velja það að vigta eftir slægingu finnst þeim allt í lagi að sparka í hina sem landa óslægðu. Þessi misheppnaða reglugerð kemur sér verst fyrir smærri dagróðrabáta, sem ótengdir eru vinnslustöðvum.

Í öðru lagi, þegar þessi mál eru skoðuð í sambandi við krókabátana, þá er það þannig að þeir fengu kvótanum upphaflega úthlutuðum í óslægðum fiski, síðan eftir nokkur ár var úthlutuninni breytt í slægt. Tökum sem dæmi krókabát sem upphaflega fékk 100 tonn í óslægðu, síðan er kvótaúthlutuninni breytt í slægt og fékk sá bátur þá úthlutað 84 tonnum slægt, sem engu breytti því slóghlutfallið var áfram 16% þannig að hann gat veitt 100 tonn óslægt. En ef engar leiðréttingar verða gerðar og krókabáturinn fær 12% slóghlutfall ofan á 84 tonna kvótann, þá gerir það 95,46 tonn í staðinn fyrir 100 tonn áður, sem er skerðing upp á 4,54 tonn fyrir bátinn, sem upphaflega fékk úthlutað 100 tonnum óslægt.

Í þriðja lagi var sagt í fréttatilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu að víðtækt samráð hefði verið haft við hagsmunaaðila um þessa breytingu, en það er ekki rétt. Þessi nefnd LÍÚ-liða reyndi með öllum ráðum að vinna sín myrkraverk í hljóði, ekkert samráð var haft við Landssamband smábátaeigenda og ekkert samband var haft við t.d. smábátafélagið Eldingu. Víðtækt samráð er ekki rétta orðið yfir þessi vinnubrögð sem eru mjög ámælisverð og virðist sem LÍÚ-klíkan hafi fengið að leika lausum hala án samráðs við alla hagsmunaaðila.

Skora ég að endingu á Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra að leiðrétta þessi mistök, breyta reglugerðinni og taka upp 16% slægingarstuðulinn á ný.

Höfundur er formaður Eldingar, félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum.“