Málstofa Hafró nk föstudag – Friðun svæða sem stjórnkerfi fiskveiða

Dr. Gunnar Stefánsson prófessor verður í Málstofu Hafró kl 12:30, föstudaginn 16. mars nk. Erindi Gunnars ber yfirskriftina „Friðun svæða sem stjórnkerfi fiskveiða“.

Á www.hafro.is segir eftirfarandi um erindið:

„Kynntar verða niðurstöður rannsókna á, hvernig göngur fiska hafa áhrif á mismunandi stjórnkerfi fiskveiða, þ.m.t. svæðalokana, með tilliti til efnahagslegra áhrifa og friðunarsjónarmiða. Sérstaklega er kannað hver áhrifin verða af mismunandi gerð svæðanna auk stærðarinnar.
Fyrri niðurstöður hafa sýnt að friðuð svæði eru aðeins líkleg til að hafa veruleg jákvæð áhrif ef þau eru notuð með öðrum kerfum, s.s. sóknartakmörkun eða kvótakerfi nema þau séu nokkuð stór og nái yfir megnið af auðlindinni sem um ræðir. Kvóta- og sóknarkerfi verða einnig virkari ef svæðalokun er notuð sem hluti af stjórnkerfinu. Dreifing framleiðslunnar (t.d. seiðarek) til annarra svæða hefur verið talin til mikilvægra jákvæðra áhrif svæðalokana en í ljós kemur að slík dreifing eykur mjög breytileikann í áhrifum svæðalokana. Ef fiskveiðar utan lokaðra svæða eru ekki takmarkaðar getur dreifing nýliðunar eyðilagt friðunaráhrif svæðanna.
Á sama hátt auka göngur eldri fisks breytileikann í áhrifum svæðalokana og er útkoman algerlega háð veiðidauðanum utan lokaða svæðisins. Hvort sem litið er á seiðarek og göngur sitt í hvoru lagi eða saman eru hins vegar augljós jákvæð áhrif af því að loka svæðum samhliða beitingu annrra stjórnkerfa. Þessi áhrif koma fram bæði í langtímahagnaði og líkum á endurreisn stofns. Hins vegar minnkar skammtímahagnaður hægt eftir því sem lokuðu svæðin stækka.
Gerð svæðanna skiptir talsverðu máli því ef lokað er samanhangandi svæðum nást meiri friðunaráhrif heldur en ef aðskildum svæðum er lokað.“