Nægur fiskur en fáir bátar

Handfærabátar eru nú óðum að hefja róðra. Rætt var við Þorgeir Guðmundsson á Þyt MB sem í mörg sumur hefur gert út frá Arnarstapa. Hann sagðist hafa farið í 4 róðra í vikunni og afli hefði verið góður. Fiskverð er ágætt um þessar mundir hefur hækkað um 20 – 30 krónur frá því í fyrra og því létt yfir mönnum.
Þorgeir sagði höfnina á Arnarstapa vera lítt setna um þessar mundir, hvað varðar fjölda báta. „Þegar sóknardagakerfið hefði verið var höfnin sneisafull á þessum árstíma, ekki óalgengt að um 50 bátar væru þar. Það hefði verið tilkomumikil sjón að horfa á flotann týnast á miðin, einn og einn frá því eldsnemma á morgnanna. Þá var ekki síður líflegt þegar bátarnir skiluðu sér inn til löndunar. Örtröð á bryggjunni og létt yfir mönnum. Nú er rýmra um báta hér í höfninni – aðeins 15 – 20 bátar. Fiskleysi á miðunum væri ekki ástæðan, heldur væri um að ræða flótta úr stéttinni. Allt of margir hafa selt kvótann og eru því kvótalausir og gætu ekki notið þess lengur að fara á skak og njóta þeirrar dásemdar sem það biði upp á“, sagði Þorgeir um leið og hann kvaddi og bauð mér að skoða klettana við Arnarstapa úr Þyti MB þegar ég ætti leið hjá.