Niðurfelling veiðigjalda af öllum bolfiski og stórhækkun sjómannaafsláttar

Á 23. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda var mikið rætt um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það var samdóma álit fundarmanna að þær aðgerðir sem kynntar hefðu verið mundu fæstar skila sér með beinum hætti til þeirra sem yrðu fyrir mestri tekjuskerðingu vegna niðurskurðar þorskveiðiheimilda.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi um þetta málefni:

„Landssamband smábátaeigenda skorar á stjórnvöld að koma með beinum hætti til móts við gríðarlegt tekjutap sjómanna og útgerðar með stórhækkun sjómannaafsláttar og niðurfellingu gjalda á útgerðina, svo sem veiðigjald af öllum bolfiski, vita- og skipagjöld svo og öðrum þjónustugjöldum sem innheimt eru af útgerðinni.“